Fjölbreytni á tímum falsfréttafarsóttar

AFP

Auka þarf fjölbreytni hjá BBC og fá til liðs við stofnunina ólíkt fólk sem hugsar á ólíkan hátt og er með ólíkar hugmyndir segir útvarpsstjóri BBC, Tony Hall, í sinni síðustu ræðu í starfi en hann lætur af störfum í lok ágúst.

Hall flutti ávarp á sjónvarpshátíðinni í Edinborg á netinu í dag. Hann segir að gildi almannaþjónustu hafi aldrei verið jafn mikið og nú – á öld upplýsingaóreiðu. 

Í Guardian er haft eftir Hall að barist sé við tvær farsóttir – kórónuveiruna og falsfréttir.

Tony Hall er útvarpsstjóri BBC.
Tony Hall er útvarpsstjóri BBC. Foreign and Commonwealth Office/Wikipedia

Greint var frá því í júní að 100 milljónir punda af fjárlögum sjónvarpshluta BBC yrðu nýtt í framleiðslu á efni sem sýndi fjölbreytni og ólíka hópa næstu þrjú árin. Tilkynnt var um þetta á sama tíma og mótmæli vegna drápsins á George Floyd voru haldin víða. 

Hall varði í ræðu sinni hvernig BBC og aðrir ljósvakamiðlar í opinberri eigu fjölluðu um atburði eins og Brexit en BBC hefur verið harðlega gagnrýnt af bæði stjórnmálaflokkum til hægri og vinstri í Bretlandi fyrir umfjöllun um slík málefni. 

Segir Hall að á sama tíma og upplýsingaóreiða er jafnmikil og raun ber vitni séu fjölmiðlar eins og BBC mikilvægir þegar kemur að fréttaflutningi. Upplýsingaóreiða og samfélagsmiðlar reyni að ýta undir sundrungu og klofningu meðal fólks. 

Ríkisútvarp eigi alls staðar undir högg að sækja á sama tíma og fólk annars staðar öfundi Breta af því sem þeir hafi með BBC. Að sjálfsögðu eigi BBC að vera tilbúið til að taka upp nýjungar og skipta máli í menningu landsins. 

Hall lætur af störfum í lok ágúst og er Tim Davie arftaki hans en hann stýrir BBC Studios í dag.  

Variety

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert