Trump harðlega gagnrýndur fyrir brot á reglum

AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hélt sinn fyrsta kosningafund í marga mánuði innandyra í gærkvöldi. Yfirvöld í Nevada eru ósátt við ákvörðun forsetans og segja hana brjóta gegn sóttvarnareglum um fjölda á samkomum.

Kosningafundir innanhúss hafa verið harðlega gagnrýndir og ekki síst eftir einn slíkan sem Trump hélt í júní og nýtt hópsmit varð að veruleika. Trump nýtti fundinn í Henderson, sem er í úthverfi Las Vegas, til að hrósa sjálfum sér og hvernig hann hefur tekið á kórónuveirufaraldrinum. Tæplega 195 þúsund Bandaríkjamenn eru látnir af völdum COVID-19.

„Við höfum unnið frábært starf og við fáum nákvæmlega ekkert hrós fyrir þá góðu vinnu sem við höfum unnið,“ sagði Trump á fundinum í gær. Að sögn Trump hefur hann með leiðtogahæfni sinni bjargað milljónum mannslífa.

Ríkisstjórinn í Nevada, Steve Sisolak, er ekki á sama máli því í Twitter-færslu gagnrýnir hann eigingirni og sjálfselsku forsetans. Að með þeim setji hann líf íbúa Nevada í hættu. „Svo virðist sem forsetinn hafi gleymt því að landið er í miðjum alheimsfaraldri.“

Trump svaraði Sisolak, sem er demókrati, og sagði hann pólitískan leiguhest. Hvatti Trump fundargesti til þess að taka til sinna ráða og hvetja ríkisstjórann til þess að opna ríkið.

Bæjarstjórn Henderson benti á að fleirum en 50 væri óheimilt að koma saman í sveitarfélaginu vegna sóttvarnaráðstafana.

Vegna farsóttarinnar hefur kosningabaráttan færst mikið til yfir á stafrænt form en tæplega tveir mánuðir eru þangað til Bandaríkjamenn kjósa sér forseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert