Stríðsglæpamaður lést úr kórónuveirunni

Momcilo Krajisnik.
Momcilo Krajisnik. mbl.is

Fyrr­ver­andi hátt­sett­ur leiðtogi Bosn­íu-Serba, sem var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir stríðsglæpi í Bosníu, lést í morgun af völdum kórónuveirunnar. Krajisnik, sem var 75 ára gamall, var fluttur á sjúkrahús í lok ágúst vegna COVID-19.

Momcilo Krajisnik, sem var hægri hönd Radov­ans Kara­dzic, fyrr­ver­andi leiðtoga Bosn­íu-Serba, lést á sjúkrahúsi í bænum Banja Luka að því er segir í tilkynningu frá sjúkrahúsinu. Krajisnik var forseti þings Bosníu-Serba á tímum Bosníustríðsins 1992-1995. Hann var harðlínuþjóðernissinni og var af mörgum talinn vera annar meginskipuleggjenda þjóðernishreinsana sem hermenn Bosníu-Serba framkvæmdu í stríðinu. 

Þúsundir óbreyttra borgara, aðallega múslímar, voru myrtar og stökkt á flótta frá heimilum sínum í þessum hreinsunum. Krajisnik var handtekinn af frönskum sérsveitarmönnum á heimili foreldra hans í Pale árið 2000 og sex árum síðar dæmdur af stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna í málefnum fyrrverandi Júgóslavíu í Haag (ICTY).

Hann var dæmdur í 27 ára fangelsi fyrir þjóðarhreinsanir og glæpi gegn mannkyninu. Dómurinn var síðar mildaður í 20 ár og árið 2013 var hann látinn laus úr haldi eftir að hafa afplánað í bresku fangelsi. Honum var fagnað eins og þjóðhetju við komuna heim til Pale.

Karadzic afplánar aftur á móti lífstíðardóm fyrir þjóðarmorð og fleiri glæpi. Um 100 þúsund létust í Bosníu-stríðinu sem skipti þjóðinni upp í þrennt, Bosníu-Króata, múslíma og Serba. Talið er að helmingur þjóðarinnar, um 2,2 milljónir, hafi neyðst til að flýja heimili sitt vegna stríðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert