Tíu manns drukknuðu og barn þar á meðal

Frá eyjunni Mayotte fyrr á árinu.
Frá eyjunni Mayotte fyrr á árinu. AFP

Tíu manns á flótta frá eyríkinu Kómoros, þar á meðal sjö ára barn, drukknuðu þegar þeir reyndu að sigla á báti til frönsku eyjarinnar Mayotte.

Á undanförnum árum hefur legið stríður straumur flóttafólks til Mayotte frá Kómoros. Einnig fjölgar þeim sífellt sem reyna að flýja þangað frá ríkjum í Afríku sunnan Sahara.

Nú síðast reyndu 24 manns að sigla frá eynni Anjouan, sem tilheyrir Kómoros, 70 kílómetra leið að Mayotte um borð í litlum fiskibát.

Svo virðist sem bátnum hafi hvolft. Fjórtán komust lífs af en tíu, eins og áður sagði, hafa fundist látnir á ströndum Mayotte.

27 þúsund manns vísað á brott

Á Mayotte búa um 280 þúsund manns, eða á við íbúafjölda Íslands upp úr síðustu aldamótum. Útlendingar eru um helmingur þeirra, og 95% útlendinganna koma frá Kómoros.

Streymi fólks á flótta til landsins hefur valdið því að íbúar heimta strangara eftirlit með landamærunum. Álag sé á skóla- og heilbrigðiskerfið.

Á síðasta ári var fleiri en 27 þúsund manns vísað á brott af eyjunni eftir að hafa leitað þar hælis.

Kusu að tilheyra Frakklandi

Árið 1975 kusu íbúar Mayotte að halda áfram að tilheyra Frakklandi, um leið og hinar eyjar klasans lýstu yfir sjálfstæði og urðu að ríkinu Kómoros.

Kómoros gerir enn tilkall til Mayotte, sem er það fátækasta af 101 stjórnsýsluhéraði Frakklands.

mbl.is