Fyrrverandi kosningastjóri Trumps handtekinn

Kosningastjórinn fyrrverandi handtekinn fyrir utan heimili sitt á sunnudag.
Kosningastjórinn fyrrverandi handtekinn fyrir utan heimili sitt á sunnudag. AFP

Fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trumps var handtekinn á sunnudag fyrir utan heimili sitt í Flórída. Hann var rekinn frá framboðinu í júlí þegar vinsældir Trumps fóru að dala. 

Að sögn lögreglu var kosningastjórinn fyrrverandi, Brad Parscale, með tíu byssur á heimilinu en húsleit var gerð þar eftir að handtökuna í kjölfar þess að eiginkona hans tilkynnti um heimilisofbeldi.

Parscale hafði gengið í skrokk á eiginkonu sinni og hótað að fremja sjálfsvíg á sunnudag þegar lögregla var kölluð á vettvang í Fort Lauderdale. Á myndum úr myndavél sem lögreglan var með á sér sést eiginkona Parscale, Candice, fyrir utan húsið á sundfatnaði að ræða við lögreglu. Hún heyrist segja að Parscale hafi látið eins og brjálæðingur og væri með hlaðna skammbyssu.

Mynd úr myndavél lögreglu af Brad Parscale fyrir utan heimili …
Mynd úr myndavél lögreglu af Brad Parscale fyrir utan heimili sitt í Flórída á sunnudag. AFP

Síðan sést Parscale koma út úr húsinu, ber að ofan og með bjórdós í hendi. Vopnaðir lögregluþjónar þvinguðu hann niður á jörðina og handjárnuðu. Heyrist Parscale endurtaka ítrekað „Ég gerði ekkert.“

Samkvæmt lögreglu var hann drukkinn og að sögn eiginkonu Parscale hefur hann verið ofbeldishneigður undanfarnar vikur. Í lögregluskýrslu kemur fram að lögreglumenn hafi tekið eftir áverkum á báðum handleggjum hennar, vanga og enni. Þegar hún hafi verið spurð hvernig hún hafi fengið áverkana hafi hún svarað að Parscale hafi barið hana.

Brad Parscale handtekinn af lögreglu á sunnudag.
Brad Parscale handtekinn af lögreglu á sunnudag. AFP

Á heimili Parscale fundust sex skammbyssur, tveir rifflar og tvær haglabyssur. Hann var lagður inn á geðdeild eftir handtökuna. Þrátt fyrir að hafa verið settur af sem kosningastjóri í júlí hefur hann verið einn helsti stjórnandi framboðs Trumps. 

AFP
mbl.is