50 kynferðisbrot í hverri viku

AFP

Áætlað er að fimmtíu kynferðisbrot séu framin í hverri viku á hjúkrunarheimilum í Ástralíu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrsludrögum rannsóknarnefndar um gæði og öryggismál í umönnun aldraða í landinu. Rannsóknin hófst fyrir tveimur árum og að sögn þeirra sem vinna að henni þá eru brotin 2.520 talsins á hjúkrunarheimilum á árunum 2018-2019.

„Þetta er þjóðarskömm,“ segir Peter Rozen sem vinnur að rannsókninni. Hann segir að eins og þessar tölur eru óhugnanlegar þá er eiginlega verra að sú stofnun ástralska ríkisins sem fær tilkynningarnar gerir ekkert með þær. 

Mistök og vanræksla í þessum geira hefur vakið mikla athygli í Ástralíu í ár en yfir 75% þeirra sem hafa látist af völdum Covid-19 eru íbúar á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. 

Rozen segir að gögn sýni fram á að kynferðislegt ofbeldi gagnvart íbúum hjúkrunarheimila fyrir aldraða hafi lengi verið vandamál og snerti um 13-18% íbúa heimilanna. Hann segir að margir hafi komið eldri og veikum ættingjum fyrir á hjúkrunarheimilum í þeirri trú að það væri öruggar og betra fyrir viðkomandi. 

„Það er þess vegna algjörlega óásættanlegt að íbúar á hjúkrunarheimilum fyrir aldraðra séu í verulega meiri hættu á að verða fyrir árásum en aðrir íbúar samfélagsins,“ segir Rozen. 

Í frétt BBC kemur fram að talið sé að yfir 32 þúsund ofbeldisbrot, líkamlegt, kynferðislegt og andlegt, séu framin á hverju ári á slíkum heimilum í Ástralíu. Árásir af hálfu bæði starfsfólks og annarra heimilismanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert