Netglæpur skekur Finnland

Höfuðstöðvar Vastaamo í Pasila, Helsinki.
Höfuðstöðvar Vastaamo í Pasila, Helsinki. AFP

Reynt hefur verið að kúga fé úr fjölmörgum sjúklingum á stórri sálfræðistofu í Finnlandi eftir að sjúkraskrám þeirra var stolið af tölvuþrjótum.

Um er að ræða Vastaamo-sálfræðistofuna sem er með um 20 útibú og þúsundir sjúklinga, að því er segir á vef BBC. Meðal gagna sem tölvuþrjótarnir stálu voru persónuupplýsingar og sjúkraskrár, það er það sem þeir höfðu rætt við sinn sálfræðing í tímum á stofunni. Stofan biður alla þá sem haft hefur verið samband við að láta lögreglu vita.

Talið er að gögnunum hafi verið stolið í nóvember 2018 og síðan hafi aftur verið brotist inn í tölvukerfi stofunnar í mars 2019.

Vastaamo segir í yfirlýsingu að stofan sé í samstarfi við lögregluna en samkvæmt frétt BBC er netfang samskiptasviðs óvirkt. Á vef Vastaamo segir að árásirnar séu grafalvarlegar og sett hefur verið upp hjálparlína þar sem öllum þeim sem hafa orðið fyrir árás er boðið upp á ókeypis meðferð.  

AP-fréttastofan segir að þegar hafi um 300 sjúkraskrár verið birtar á djúp­net­inu (e. dark web). 

Ríkisstjórn Finnlands hélt neyðar-ríkisstjórnarfund vegna málsins á sunnudagskvöld þar sem innanríkisráðherra landsins, Maria Ohisalo, sagði málið einstakt. 

Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Finnlandi enda um upplýsingar að ræða um fólk á öllum aldri, jafnvel börn. 

BBC ræddi við einn þeirra sem fékk símtal frá fjárkúgaranum og sá hafi tjáð honum að Vastaamo hafi neitað að greiða 40 Bitcoin, sem svari til rúmlega 73 milljóna króna, og því þurfi hann að greiða 200 evrur (33 þúsund krónur) í rafmyntinni. Eftir sólarhring myndi krafan hækka í 500 evrur og eftir þrjá sólarhringa yrðu upplýsingar um hann síðan hann var unglingur birtar. 

Viðmælandinn segir að hann sé mjög áhyggjufullur vegna þessa enda séu þetta upplýsingar sem hann hafi ekki áhuga á að deila með heimsbyggðinni.

mbl.is