Hvernig verður þetta í nótt?

Kjósendur á kjörstað í Hillsboro í Virginíu í dag.
Kjósendur á kjörstað í Hillsboro í Virginíu í dag. AFP

Nokkuð ólíklegt er að annað hvort Donald Trump eða Joe Biden muni standa uppi með þá 270 kjörmenn, sem þarf til að sigra forsetakosningarnar, þegar birta fer til í fyrramálið.

Það þarf þó ekki að þýða, að ekki verði ljóst um það leyti í hvað stefnir.

Hér að neðan verður farið yfir mikilvægar tímasetningar í nótt og hvert augu rýnenda munu beinast hverju sinni.

Allt fer þetta eftir því hversu mjótt verður á munum í helstu barátturíkjunum og hversu fljót þau eru að telja atkvæði, með þeim hætti að reikna megi með að þau gefi góða mynd af lokaúrslitum.

Donald Trump hefur ítrekað gefið í skyn að verði niðurstöður ekki skýrar á kosninganótt sé það til marks um einhvers konar vandræði.

„Ég held að það sé hræðilegt að við getum ekki vitað niðurstöður kosninga á kosninganótt,“ sagði forsetinn á sunnudag. „Ég held að það sé hræðilegur hlutur þegar ríki fá að telja atkvæði í langan tíma eftir að kosningarnar eru búnar.“

Ekki er víst hvað forsetanum finnst vera langur tími. En það er eðlilegt að halda áfram að telja atkvæði eftir kjördag.

Í sögu forsetakosninga í Bandaríkjunum hefur það aldrei gerst að öll atkvæði hafi verið talin á kosninganótt, eins og segir í umfjöllun AP. Ómögulegt sé að telja öll þessi atkvæði svo hratt, en þau geti í ár verið allt að 150 milljón talsins.

Sum ríki ekki vel undirbúin

Ljóst er að það helsta sem tafið gæti fyrir talningu atkvæða í ár er sú staðreynd að milljónir Bandaríkjamanna ákváðu að póstleggja atkvæði sín.

Almennt tekur það lengri tíma að telja póstlögð atkvæði. Starfsmenn kjörstjórna þurfa að taka kjörseðlana úr umslögunum, skima eftir villum, flokka þá og fletja út, allt áður en hægt er að renna þeim í gegnum skanna til talningar.

AFP

Í einhverjum ríkjum hefur fjöldi atkvæða áður verið póstlagður í fyrri kosningum og þau því komið sér upp góðu kerfi þegar hér er komið sögu.

En sum ríki eru ekki vel undirbúin fyrir þessa breytingu og þar gilda jafnvel lög um að ekki megi telja póstlögð atkvæði fyrr en á kjördegi eða síðar.

Þrjú mikilvæg barátturíki hafa slíkar hömlur í gildi; Michigan, Pennsylvanía og Wisconsin. Þar hefur löggjafarvaldið, undir forystu repúblikana, neitað beiðnum kjörstjórna um að uppfæra lögin til að flýta fyrir talningu atkvæða.

Þess í stað munu þau fyrst upplýsa um niðurstöður samkvæmt talningu atkvæða sem greidd voru á kjörstað, en búist er við að mikill meirihluti þeirra falli með Trump. Í kjölfarið munu þau uppfæra tölurnar smám saman með póstlögðum atkvæðum, þar sem líklega verður oftar hakað við nafn Joe Biden.

Augu margra á Flórída

Misjafnt er einnig eftir ríkjum hvenær byrja má að telja utankjörfundar- og póstlögð atkvæði. Í Alaska má til dæmis ekki byrja að telja utankjörfundaratkvæði fyrr en viku eftir kosningarnar, þann 10. nóvember.

Fréttaveitan útilokar þó ekki að hægt verði að skera úr um sigurvegarann á kosninganótt.

Ekki sé talið hægt í öllum barátturíkjum. Og ef einhver þeirra tilkynna niðurstöður sínar snemma þá gæti annar frambjóðandinn haft meirihluta kjörmanna, jafnvel án þess að vita hver bar sigur úr býtum í Michigan, Pennsylvaníu eða Wisconsin.

Líkurnar á því aukast ef ekki er mjótt á munum í þessum ríkjum.

Þetta veldur því að augu margra eru á Flórídaríki, barátturíkinu með flesta kjörmennina. Þar máttu kjörstjórnir hefja talningu póstlagðra atkvæða 22 dögum fyrir kosningarnar.

AFP

Svo lengi sem ekki verður of mjótt á munum þar – Flórída er þekkt fyrir ofurnaum úrslit – þá gæti talningu atkvæða verið nærri lokið um miðnætti að staðartíma, eða um klukkan fimm að morgni miðvikudags á Íslandi.

Og ef Trump tapar Flórída, þá mun það reynast afar erfitt fyrir hann að ná í þessa nauðsynlegu 270 kjörmenn í öðrum ríkjum.

Ekki með reynslu af talningu fjölda póstatkvæða

Tvö önnur barátturíki í suðrinu, Norður-Karólína og Georgía, mega byrja að telja póstlögð atkvæði snemma. Sigur í ríkjunum þykir virkilega mikilvægur fyrir forsetann. Hins vegar, ólíkt Flórída, þá hefur hvorugt þeirra reynslu af meðhöndlun fjölda póstatkvæða. Það er því óljóst hve lengi talningin mun taka.

Í miðvestrinu svokallaða eru tvö önnur barátturíki, Iowa og Ohio, sem leyfa einnig kjörstjórnum að telja póstlögð atkvæði fyrr.

Trump fór með sigur af hólmi í báðum ríkjunum árið 2016, en demókratar telja að Biden geti gripið þau aftur í sinn dálk. Niðurstöður þar gætu gefið til kynna hvað liggur fram undan í hinum ryðbeltisríkjunum, þar sem búist er við að talning taki lengri tíma.

Fyrstu tölur á miðnætti að íslenskum tíma

Associated Press og aðrir þeir fjölmiðlar sem spá fyrir um sigurvegara kosninga geta í fyrsta lagi klukkan 19 á austurströndinni – á miðnætti að íslenskum tíma – byrjað að raða ríkjum í dálka demókrata og repúblikana.

Þá loka nefnilega kjörstaðir í sex ríkjum. Af þeim eru Kentucky og Suður-Karólína líkleg til að falla í hlut Trumps.

Auk þess loka kjörstaðir í Indiana klukkan 18 og er Trump einnig talinn líklegur til að fá meirihluta atkvæða í því ríki. Úr þessum þremur ríkjum fær hann samanlagt 28 kjörmenn.

Á sama tíma eru yfirgnæfandi líkur á að Vermont og Virginía komi í hlut Bidens. Það verða samtals sextán kjörmenn.

Sjötta og um leið mikilvægasta ríkið til að fylgjast með klukkan sjö er Georgía. Því er spáð að þar verði mjög mjótt á munum, að því er fram kemur í umfjöllun FiveThirtyEight. Þess vegna gæti tekið nokkra daga að skera úr um hvor frambjóðandinn fái kjörmenn ríkisins, sem eru sextán talsins.

Líkleg staða eftir tölurnar á miðnætti er því: Biden 16, Trump 28.

Klukkan 00.30

Þrjú ríki bætast í hópinn klukkan 00.30 að íslenskum tíma: Norður-Karólína, Ohio og Vestur-Virginía.

Trump mun líkast til fara með öruggan sigur í Vestur-Virginíu. Þaðan fær hann fimm kjörmenn.

Í Norður-Karólínu og Ohio eru úrslitin öllu tvísýnni. Ef Biden reynist hafa átt góðan dag er hugsanlegt að þau verði ljós á kosninganótt, þar sem bæði ríkin eru tiltölulega fljót að telja atkvæði kjósenda.

Fari svo, fær Biden 33 kjörmenn samanlagt. Líklegra er þó að úrslitin verði ekki ljós strax. Þegar hér er komið sögu hefur því líklega ekkert breyst nema hvað að Trump hefur bætt við sig fimm kjörmönnum.

Líkleg staða eftir tölurnar klukkan 00.30: Biden 16, Trump 33.

Klukkan eitt eftir miðnætti

Á slaginu átta að kvöldi kjördags á austurströndinni, eða klukkan eitt að íslenskum tíma, lokar kjörstöðum í miklum fjölda ríkja.

Af þeim munu Oklahoma, Alabama, Tennessee, Missouri og Mississippi líklega öll koma í hlut repúblikanans Trumps. Munu fjölmiðlar því eflaust verða fljótir til að úthluta honum þeim 43 kjörmönnum sem þessi ríki gefa.

Á sama tíma munu Delaware, Massachusetts, Rhode Island, Illinois, New Hampshire og Maine, auk 1. kjördæmis Maine, líklega falla fljótlega í hlut Bidens. Samanlagt veita þau 45 kjörmenn.

Til viðbótar við þessi ríki loka Connecticut, Maryland, New Jersey og Washington-borg kjörstöðum sínum klukkan átta. Þar er búist við að talning atkvæða taki lengri tíma, en líklegt þykir þó að einhvern tíma um nóttina muni þau raðast í dálk Bidens. Þeim fylgja 34 kjörmenn.

Erfitt er að spá fyrir um atkvæði 2. kjördæmis Maine, en Maine og Nebraska velja kjörmenn einnig svæðisbundið eftir þingkjördæmum ríkjanna. 

Ríkið þar sem úrslitin þykja hvað mikilvægust, Pennsylvanía, er einnig í hópi þeirra sem loka kjörstöðum á þessum tímapunkti. Allar líkur eru á að úrslitin þar verði ekki ljós fyrr en á miðvikudag í fyrsta lagi.

Loks er það Flórída. Þó úrslitin séu tvísýn þar eins og áður sagði, eru atkvæði kjósenda talin hraðar. Það ætti þannig ekki að koma á óvart ef fjölmiðlar úrskurða sigurvegara þar skömmu eftir klukkan eitt að íslenskum tíma.

Ef það gengur eftir mun það segja margt um hvernig vindurinn blæs á kjördegi. Spálíkan FiveThirtyEight bendir þannig til þess að ef Trump tapar Flórída, þá hafi hann minna en 1% líkur á að sigra kosningarnar.

Ef Flórída, Pennsylvanía og 2. kjördæmi Maine eru tekin úr jöfnunni, þá verður líkleg staða eftir talningu atkvæða ríkjanna sem loka kjörstöðum klukkan eitt: Biden 95, Trump 76.

Klukkan 01.30

Aðeins eitt ríki lokar kjörstöðum klukkan hálftvö eftir miðnætti að íslenskum tíma. Það er Arkansas.

Sex kjörmenn ríkisins eru taldir munu fljótt falla í dálk repúblikana.

Líkleg staða klukkan hálftvö: Biden 95, Trump 81.

Klukkan tvö eftir miðnætti

Fjórtán ríki loka kjörstöðum sínum klukkan tvö á miðnætti að íslenskum tíma. Af þeim er Joe Biden talinn öruggur með kjörmenn New York, New Mexico, Colorado og Minnesota, sem samanlagt eru 53 talsins.

Líklegt er talið að Michigan, með 16 kjörmenn og Wisconsin, með 10 kjörmenn, fylkist einnig í lið með demókratanum. Hins vegar, þar sem barátturíkin tvö telja atkvæði hægt, er ólíklegt að hægt verði að segja til um úrslit þeirra um leið og kjörstaðir loka.

Yfirmaður kosninga í Michigan hefur meira að segja varað við því að ekki megi búast við fullnægjandi úrslitum fyrr en á föstudag.

Á sama tíma loka kjörstaðir í Kansas, Louisiana, Nebraska, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta og Wyoming, og búist er við að þaðan komi 27 kjörmenn í raðir Trumps.

Erfiðara er að segja til um úrslitin í 2. kjördæmi Nebraska, í Texas og í Arizona. Samanlögð gefa þau 50 kjörmenn, en þar af koma 38 frá Texas. Klukkan tvö verða því eflaust allra augu á Texas, sem hefur verið vígi repúblikana í áratugi en á nú undir högg að sækja.

Ef Michigan, Wisconsin, 2. kjördæmi Nebraska, Texas og Arizona eru tekin úr jöfnunni er líkleg staða klukkan tvö eftir miðnætti að minnsta kosti þessi:

Biden 148, Trump 108.

Athugið að hafi annar frambjóðandanna farið mikið fram úr sinni tölu þegar hér er komið sögu gæti það bent sterklega til þess að sá muni fara með sigur af hólmi.

Klukkan þrjú

Kjörstaðir loka í fjórum ríkjum klukkan þrjú eftir miðnætti að íslenskum tíma: Nevada, Iowa, Montana og Utah. 

Af þessum fjórum þykja úrslitin vísust í Utah, þar sem líkur forsetans á sigri eru metnar um 96%. Atkvæði eru talin hægt í ríkinu en þó gætu úrslitin orðið fljótt ljós. Þaðan fengi Trump sex kjörmenn.

Í Nevada eru sigurlíkur Bidens metnar um 89%. Þar er líka búist við að talning muni ganga hægt svo óvíst er hvort hægt verði að segja til um úrslitin á kosninganótt.

Aðra sögu er að segja af Montana, þar sem viðbúið er að úrslitin verði fljótt tilkynnt. Hver þau verða er ekki víst, en Biden er talinn hafa 15% líkur á sigri þar.

Loks eru allar líkur á að úrslit kosninganna í Iowa verði ekki að fullu ljós fyrr en nokkrum dögum eftir kjördag. Póstlögð atkvæði mega þar berast allt til 9. nóvember. Útlit er fyrir að þau atkvæði muni einnig skipta máli, þar sem afar mjótt er á munum í ríkinu.

Hér má því í raun aðeins fullyrða með vissu að Utah falli í hlut Trumps.

Líkleg staða kjörmanna eftir klukkan þrjú: Biden 148, Trump 114.

Klukkan fjögur

Fjögur ríki loka kjörstöðum sínum klukkan fjögur. Þrjú þeirra eru jafnan fagurblá: Kalifornía, Washington og Oregon. Eitt er eldrautt: Idaho.

Héðan ætti Biden því að fá samtals 74 kjörmenn í einni gommu. Á sama tíma ættu fjórir kjörmenn Idaho að fylkja sér í raðir Trumps.

Líkleg staða eftir klukkan fjögur, það er burtséð frá mögulegum úrslitum í barátturíkjum sem gætu verið orðin ljós um þetta leyti: Biden 222, Trump 118.

Eftir klukkan fimm

Þá eru aðeins Havaí og Alaska eftir. Fjórir kjörmenn Havaí ættu samkvæmt öllu að raðast í dálk demókrata.

Líklegt þykir að þrír kjörmenn Alaska falli með Trump, en þó er Biden talinn eiga um 15% líkur á að grípa þá með sér.

Staða kjörmanna frá þeim ríkjum, þar sem úrslitin eru talin nánast örugg, ætti því um þetta leyti að vera eftirfarandi:

Biden 226, Trump 121.

Líklegt er þó að á þessum tímapunkti hafi annar hvor eða báðir frambjóðendur siglt fram úr þessum tölum. Og þess vegna fylgjumst við með talningu atkvæða í nótt.

mbl.is