Ríkin sex sem skipta mestu máli

Joe Biden og Donald Trump á framboðsfundum á föstudag og …
Joe Biden og Donald Trump á framboðsfundum á föstudag og laugardag. AFP

Forsetakosningarnar sem fram fara í Bandaríkjunum á morgun virðast munu snúast um úrslit í nokkrum ríkjum, sem Joe Biden verður að vinna á sitt band eftir að Donald Trump sigraði þar í síðustu kosningum.

Öll sex mikilvægustu ríkin í þessum kosningum, Flórída, Pennsylvanía, Michigan, Norður-Karólína, Wisconsin og Arizona, gáfu Trump atkvæði sín þegar hann atti kappi við Hillary Clinton árið 2016.

Þarf einungis tvö stærstu

Forsetinn gerir sér grein fyrir mikilvægi ríkjanna. Hann ferðaðist til þriggja þeirra bara í gær; Michigan, Norður-Karólínu og Flórída. Á sama tíma hélt Biden tvo viðburði í Philadelphiu, höfuðborg Pennsylvaníu.

Joe Biden er að meðaltali með 3,2 prósentustiga forskot í þessum barátturíkjum, samkvæmt samantekt RealClearPolitics á þeim könnunum sem gerðar hafa verið.

Fari svo að hin 44 ríkin kjósi á sama veg og þau gerðu fyrir fjórum árum, þarf Biden einungis að sigra í tveimur stærstu barátturíkjunum, Flórída og Pennsylvaníu, til að verða forseti.

Hér verður farið yfir ríkin sex:

Stuðningsmenn Trumps á fjöldafundi hans í Pennsylvaníu á laugardag.
Stuðningsmenn Trumps á fjöldafundi hans í Pennsylvaníu á laugardag. AFP

Úthverfin í Pennsylvaníu

Ríkið þar sem Joe Biden fæddist er það stærsta sem barist er um í ryðbeltinu svokallaða, svæði þar sem hnignun iðnaðar og missir starfa af þeim sökum hafa einkennt þróun atvinnulífsins undanfarinn áratug.

Sjálfboðaliðar á vegum forsetans hafa hrannast inn í ríkið, þar á meðal inn í úthverfi borga þar sem þeir ganga á milli húsa.

Á sama tíma hefur framboð Bidens lagt áherslu á að fylgja sóttvarnaviðmiðum. Herferð hans hefur þannig að mestu farið fram um netið ásamt því sem framboðið hefur hrúgað inn fé til auglýsingakaupa í ríkinu.

Stærstu borgirnar munu kjósa Biden í miklum mæli. Dreifbýlið í vesturhluta ríkisins og íhaldssama Mið-Pennsylvanía munu hins vegar falla með Trump. Úthverfin og norðausturhluti ríkisins skipta því mestu máli.

Ríkið þykir lík­leg­ast til að skera úr um hvor fram­bjóðend­anna beri sig­ur úr být­um, en talið er senni­legt að Trump muni líta út fyr­ir að hafa for­skot í taln­ingu á kosn­ing­anótt. Niður­stöðurn­ar geti þó breyst verulega þegar utan­kjör­fund­ar­at­kvæði verða tal­in dag­ana þar á eft­ir.

Biden er talinn hafa 4,3 prósentustiga forskot í ríkinu, samkvæmt samantekt RealClearPolitics.

Frá framboðsfundi Kamölu Harris í síðustu viku í Troy í …
Frá framboðsfundi Kamölu Harris í síðustu viku í Troy í Michigan. AFP

Mótmælt í Michigan

Árið 2016 féll Michigan naumlega með Trump. Hart hefur enda verið barist um ríkið í ár. Kjósendur hafa lýst áhyggjum af áhrifum faraldursins á efnahaginn og viðbrögðum forsetans við útbreiðslu hans.

Ríkisstjórinn Gretchen Whitmer er úr flokki demókrata og hefur átt í deilum við Trump. Samkomutakmarkanir sem hún hefur sett í ríkinu hafa fallið í grýttan jarðveg íhaldsmanna.

Mótmælendur vopnaðir byssum komu saman fyrir utan þinghús Michigan í sumar og nýlega voru nokkrir handteknir grunaðir um að hafa lagt á ráðin um að ræna ríkisstjóranum.

Biden er talinn hafa 6,1 prósentustigs forskot í ríkinu.

Joe Biden heimsótti starfsfólk álvers í Manitowoc í Wisconsin í …
Joe Biden heimsótti starfsfólk álvers í Manitowoc í Wisconsin í september. AFP

Hundsa ekki Wisconsin

Hillary Clinton kaus að halda ekki framboðsfundi í Wisconsin árið 2016 og fékk að kenna á því í kosningunum um haustið.

Í ár hafa demókratar reynt að leggja aukna áherslu á ríkið, til að mynda með því að halda ráðstefnu sína þar í síðasta mánuði. Faraldurinn gerði það þó að verkum að hún var haldin yfir netið.

Bæði Trump og Biden hafa ferðast til ríkisins í aðdraganda kosninganna. Trump fór þangað síðast á föstudag. Varaforsetaefnin Mike Pence og Kamala Harris hafa einnig varið tíma sínum þar, auk þess sem forsetafrúin Melania Trump hélt viðburð í Michigan á laugardag. 

Biden er talinn hafa 6,6 prósentustiga forskot í ríkinu.

Forsetahjónin á fjöldafundi í Tampa í Flórída í síðustu viku.
Forsetahjónin á fjöldafundi í Tampa í Flórída í síðustu viku. AFP

Flórída ein helsta stoðin

Stærsta barátturíkið er í sólarbeltinu svokallaða, hópi ríkja í suður- og suðvesturhluta Bandaríkjanna þar sem íbúum fjölgar hratt. Landbúnaður og iðnaður fyrir herinn eru áberandi, auk þess sem eftirlaunaþegar standa undir hærra hlutfalli íbúa en annars staðar.

Repúblikanar reyna að verja ríkið með öllum ráðum á sama tíma og demókratar saka þá um að skerða kosningaréttindi fólks, sérstaklega í minnihlutahópum.

Í Flórída er risavaxinn hópur kjósenda af rómönskum uppruna sem skiptir yfirleitt höfuðmáli í kosningum þar. Þetta ár er engin undantekning en kannanir hafa sýnt að fylgi demókrata hefur dvínað í hópnum frá árinu 2016.

Flestir sérfræðingar segja að ríkið sé í raun ein helsta stoðin í varnarvegg forsetans. Falli hún, muni Trump líklega tapa Hvíta húsinu.

Biden er talinn hafa 0,8 prósentustiga forskot í ríkinu.

Joe Biden ræðir við fjölmiðla í Charlotte í Norður-Karólínu í …
Joe Biden ræðir við fjölmiðla í Charlotte í Norður-Karólínu í september. AFP

Tvísýnt í Norður-Karólínu

Demókratinn Roy Cooper er ríkisstjóri í Norður-Karólínu, sem yfirleitt er hliðhollt repúblikönum. Hann hefur notið töluverðra vinsælda og fengið lof fyrir fínstillt viðbragð sitt við faraldrinum.

Ríkið féll með Trump í síðustu kosningum og munaði þá þremur prósentustigum. Báðir flokkar viðurkenna að nú er ómögulegt að segja til um hvor frambjóðendanna njóti þar meiri stuðnings.

Repúblikanar ákváðu að halda sína ráðstefnu hér í síðasta mánuði, þótt hún hafi að mestu farið fram yfir netið. Trump hélt þá fjöldafund í ríkinu í gær.

Biden er talinn hafa 0,3 prósentustiga forskot í ríkinu.

Trump hélt kosningafund á Laughlin/Bullhead-alþjóðaflugvellinum í Bullhead-borg í Arizona í …
Trump hélt kosningafund á Laughlin/Bullhead-alþjóðaflugvellinum í Bullhead-borg í Arizona í síðustu viku. AFP

Arizona og John McCain

Arizona hefur í áratugi verið sterkt vígi repúblikana. Kjörskráin þar hefur þó tekið miklum breytingum, þar sem fjölgað hefur í hópi fólks af rómönskum uppruna auk þess sem frjálslyndir Kaliforníubúar hafa tekið sér bólfestu í ríkinu.

Repúblikanar í Arizona eru ánægðir með aðgerðir forsetans til að stemma stigu við innflytjendum í landið og reyna að reisa vegg á landamærunum við Mexíkó.

Trump þykir þó hafa veikt möguleika sína töluvert með endurteknu níði gegn öldungadeildarþingmanninum heitna John McCain, sem var fulltrúi Arizona á Bandaríkjaþingi í áratugi og andi hans þykir enn svífa þar yfir vötnum.

Biden er talinn hafa 1,1 prósentustigs forskot í ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert