Átök í aðsigi

Það var Clarence Thomas, einn dómara við Hæstarétt, sem sór …
Það var Clarence Thomas, einn dómara við Hæstarétt, sem sór Barrett inn í embættið að hennar ósk í gærkvöldi. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í gær að kjörstjórnir í Wisconsin-ríki gætu ekki talið þau atkvæði sem berast í pósti eftir kjördag komandi forsetakosninga, þann 3. nóvember.

Úrskurðurinn gæti haft töluverða þýðingu fyrir komandi kosningar, þó segja megi að hann hafi í gær fallið í skugga staðfestingar öldungadeildarinnar á tilnefningu Amy Coney Barrett í sæti dómara við dómstólinn.

Á lægra dómstigi hafði kjörstjórnum ríkisins verið fengið leyfi til að telja kjörseðla sem berast allt að sex dögum eftir kjördag. Alríkisdómstóll tók það leyfi til baka áður en málið kom loks til kasta Hæstaréttar, eftir flýtileiðum sökum eðlis málsins.

Rétturinn klofnaði í úrskurði sínum um álitaefnið, eins og svo oft áður. Dómararnir þrír sem skipa frjálslyndu fylkingu réttarins vildu halda sex daga framlengingunni til streitu, en íhaldssamari dómararnir fimm töldu það ekki koma til greina.

Mistekist að verja kjósendur

„Á meðan faraldur kórónuveirunnar geisar, þá hefur réttinum mistekist að verja kjósendur þjóðarinnar,“ skrifaði dómarinn Elena Kagan í sératkvæði frjálslyndu fylkingarinnar.

Benti hún á að sex daga framlengingin hefði verið í gildi við forkosningar flokkanna í aprílmánuði og að um áttatíu þúsund kjörseðlar hefðu borist daginn eftir þær kosningar.

Þess má hér geta að Donald Trump vann í Wisconsin árið 2016 með tæplega 23 þúsund atkvæða mun.

Nauðsynlegt væri, sagði Kagan, í ljósi faraldursins og þess fjölda utankjörfundaratkvæða sem honum fylgja, að framlengja þann tíma sem leyfilegt er að telja atkvæði.

Hafi fjölda tækifæra til að greiða atkvæði

Wisconsin er um þessar mundir eitt þeirra ríkja Bandaríkjanna þar sem faraldurinn er í hvað mestum hæðum. Aldrei hafa fleiri þurft að leggjast inn á sjúkrahús í ríkinu vegna sjúkdómsins, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian

Repúblikanar hafa mótmælt framlengingunni og meðal annars fullyrt að kjósendur hafi fjölda tækifæra til að greiða atkvæði áður en kjördagur tekur enda. Ekki eigi að breyta gildandi reglum þegar kosningar séu svo skammt undan.

Í flýtimeðferðarmálum sem þessum skrifa dómararnir oft lítið sem ekkert til að rökstyðja atkvæði sín við úrlausnina. Svo var ekki í gær, en fjórir dómarar fylltu samtals 35 blaðsíður þar sem þeir færðu fram rök fyrir sínu áliti.

Þessir kjósendur stilltu sér upp við atkvæðakassa í Orange-sýslu í …
Þessir kjósendur stilltu sér upp við atkvæðakassa í Orange-sýslu í Kaliforníu fyrr í mánuðinum. AFP

Geti ekki spunnið fram eigin kosningareglur

Neil Gorsuch, sem Trump forseti skipaði til að fylla skarð Antonin Scalia við dómstólinn árið 2017, sagðist gera sér grein fyrir því hvernig faraldurinn flækti kosningarnar en varði úrskurð réttarins:

„Enginn dregur í efa að það að halda kosningar á landsvísu í miðjum heimsfaraldri felur í sér alvarlegar áskoranir,“ skrifaði Gorsuch.

„En ekkert af því þýðir að einstakir dómarar geti spunnið fram með sínar eigin kosningareglur, í stað þeirra sem kosnir fulltrúar almennings hafa þegar komið sér saman um.“

Geti ekki heimtað að ríkið telji atkvæði þeirra

Brett Kavanaugh, sem Trump skipaði í embætti árið 2018, færði þrenns konar rök fyrir því að varpa á brott framlengingunni.

Í fyrsta lagi ættu dómstólar ekki að breyta gildandi reglum þegar svo skammt sé til kosninga. Í öðru lagi ættu dómstólar ekki að hlutast til um ákvarðanir sem varða áhyggjur af lýðheilsu. Og í þriðja lagi væru frestir sem tengjast kosningum virkilega mikilvægir, hvar svo sem þeir séu settir.

„Kjósendur sem, til dæmis, mæta á kjörstað á miðnætti eftir að kjörstöðum hefur verið lokað, hafa engan rétt á því að heimta að ríkið taki samt sem áður atkvæði þeirra til greina,“ skrifaði Kavanaugh meðal annars.

„Kjósendur, sem skila inn utankjörfundaratkvæðum eftir frest ríkisins, geta að sama skapi ekki heimtað að ríkið telji atkvæði þeirra.“

Forsetinn greiddi sitt atkvæði í Flórídaríki um helgina.
Forsetinn greiddi sitt atkvæði í Flórídaríki um helgina. AFP

Vilji geta tilkynnt úrslit á kosninganóttu

Hann tók fram að yfirvöld í Wisconsin hefðu hvatt kjósendur til að bíða ekki með að óska eftir utankjörfundaratkvæðaseðli til að fylla út, og reynt að upplýsa þá um mögulegar tafir sem orðið gætu við póstþjónustu í kringum kosningarnar.

„Af mikilvægum ástæðum þá krefjast flest ríki, þar á meðal Wisconsin, þess að utankjörfundaratkvæði berist fyrir eða á kjördag, ekki bara að þau séu póstlögð fyrir kjördag,“ skrifaði hann og hélt áfram:

„Þessi ríki vilja forðast þá ringulreið og grunsemdir um nokkuð ósæmilegt, sem geta risið upp ef þúsundir utankjörfundaratkvæða berast eftir kjördag og snúa mögulega við úrslitum kosninganna. Og þessi ríki vilja einnig geta endanlega tilkynnt úrslit kosninganna á kosninganóttu, eða eins fljótt og mögulegt er þar á eftir.“

„Stór vandamál og ósamræmi“

Í greiningu Washington Post er bent á að í atkvæði Kavanaugh heyrist endurómur fullyrðingar sem forsetinn tísti fyrr í gær, þó það tengist ekki með beinum hætti.

„Stór vandamál og ósamræmi í póstlögðum atkvæðum um öll Bandaríkin. Verður að vera lokafjöldi þann 3. nóvember,“ tísti forsetinn.

Twitter faldi síðar tístið á bak við viðvörun, þess efnis að það innihéldi umdeildar upplýsingar sem gætu verið misvísandi um hvernig megi taka þátt í kosningum.

„Eru engin úrslit til að snúa við“

Elena Kagan lagði út frá þessari fullyrðingu Kavanaugh í sératkvæðinu sínum megin borðsins.

„Kavanaugh heldur því fram að „grunsemdir um nokkuð ósæmilegt“ myndu koma í kjölfar þess að „utankjörfundaratkvæði berast eftir kjördag og snúa mögulega við úrslitum kosninganna“,“ skrifaði hún.

„En það eru engin úrslit til að snúa við þar til öll gild atkvæði hafa verið talin. Og ekkert myndi vera grunsamlegra eða ósæmilegra, en að neita að telja atkvæði um leið og klukkan slær tólf á kosninganóttu. Að gefa annað í skyn, sérstaklega á þessum erfiðu tímum, er að grafa undan kosningaframkvæmdinni.“

4-4 í Hæstarétti

Úrskurðurinn fylgir í kjölfar keimlíks máls sem kom fyrir réttinn í síðustu viku. Deilt var um hvort leyfa ætti álíka framlengingu í Pennsylvaníuríki, en æðsti dómstóll ríkisins hafði leyft framlengingu upp á þrjá daga.

Forseti réttarins, John Roberts, snerist þá á sveif með frjálslyndu fylkingunni. Um leið höfðu repúblikanar ekki meirihluta til snúa niðurstöðunni við. Úrslitin urðu 4-4, ekki 5-3 eins og í Wisconsin-málinu, og því hélt niðurstaða lægra dómstigs gildi sínu.

Í atkvæði sínu í gær útskýrði Roberts að í Pennsylvaníu-málinu hefði ríkisdómstóllinn verið að beita stjórnarskrá eigin ríkis.

„Mismunandi löggjöf og annars konar fordæmi stýra þessum tveimur aðstæðum, og krefjast þess, í þessum sérstöku kringumstæðum, að við leyfum breytingu kosningareglna í Pennsylvaníu en ekki í Wisconsin,“ skrifaði Roberts.

Starfsmaður kjörstjórnar skoðar kjörseðla til póstlagningar í Utah í gær.
Starfsmaður kjörstjórnar skoðar kjörseðla til póstlagningar í Utah í gær. AFP

Forsetinn gæti lent í minnihluta

Í umfjöllun vefmiðilsins Bloomberg er bent á að álitaefni á borð við þetta, þar sem tekist er á um sjálfstæði dómstóla einstakra ríkja, geti orðið lykilatriði í þeim málum sem kunna að rísa um framkvæmd forsetakosninganna.

Pennsylvaníu-málið gæti jafnvel aftur komið á borð Hæstaréttar. Repúblikanar í ríkinu hafa beðið réttinn að endurskoða málið og rökstyðja beiðnina með fullyrðingu um að dómstóllinn í Pennsylvaníu hafi teygt sig út fyrir valdmörk sín þegar hann skipaði starfsmönnum kjörstjórna að telja kjörseðla sem bærust allt að þremur dögum eftir kjördag.

Fari svo, gæti forseti réttarins sjálfur lent í minnihluta við úrlausnina. Því að nú, ólíkt því sem var þá, verður rétturinn fullskipaður.

Víkur þá sögunni aftur að Amy Coney Barrett, sem sett var í embætti í gærkvöldi. Hún er af fólki innan beggja flokka talin munu feta í fótspor læriföður síns, Antonin Scalia, sem þótti einn íhaldssamasti dómari réttarins í sinni tíð.

Fullyrt er í umfjöllun dagblaðsins New York Times að líklega muni hún jafnvel skipa sér sæti til hægri við þá Roberts og Kavanaugh.

Trump og Barrett stilltu sér saman upp og veifuðu frá …
Trump og Barrett stilltu sér saman upp og veifuðu frá svölunum. AFP

Minnti á pólitískan fjöldafund

Og það var sigurreifur Trump, í miðri herferð sinni til endurkjörs, sem hélt óvenjulega athöfn til innsetningar nýja dómarans í gærkvöldi. Eftir athöfnina veifuðu þau saman, frá Truman-sölum Hvíta hússins, til þeirra hundraða sem saman voru komin til að fagna við tilefnið.

Þannig segir blaðamaður dagblaðsins að athöfnin hafi minnt meira á pólitískan fjöldafund en innsetningarathöfn hæstaréttardómara. Ákvörðunin ein og sér, að halda slíkan viðburð, hafi sömuleiðis verið merkileg í ljósi þess að svipuð athöfn, þar sem tilnefning dómarans var tilkynnt fyrir um mánuði, reyndist síðar hafa smitað fjölda fólks af kórónuveirunni.

Forsetinn var eftir sem áður ánægður með hvernig til hefði tekist: „Hún er ein af snjöllustu lögspekingum þjóðarinnar okkar,“ sagði Trump, „og mun verða framúrskarandi dómari við æðsta dómstólinn í landinu okkar.“

Vika er til kosninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert