„Móðurhjartað rifið í sundur“

Hin franska Daisy May Tran var 28 ára gömul þegar …
Hin franska Daisy May Tran var 28 ára gömul þegar hún varð fyrir bifreið ölvaðs ökumanns í Ögðum í Noregi aðfaranótt 2. júní í fyrra. Tran lét líf sitt á norskum malarvegi og vinkona hennar stórslasaðist. Móðir ákærða, 22 ára gamals manns, hefur setið réttarhöldin og er að eigin sögn í áfalli. Ljósmynd/Úr einkasafni

Íbúar fámenns þéttbýlissvæðis, Snartemo í Ögðum, eða Agder, við vesturströnd Noregs vöknuðu upp við vondan draum að morgni 2. júní í fyrrasumar þegar limlest lík hinnar frönsku Daisy May Tran, 28 ára gamallar, hafði fundist þá um nóttina á malarvegi í Hægebostad sem svo heitir. Skammt frá lá vinkona hennar stórslösuð og þótti fljótt ljóst að vinkonurnar hefðu orðið fyrir ökutæki á töluverðri ferð einhvern tímann um nóttina.

Vinkonurnar voru á ferð með norskum vinahópi frá Stavanger sem gerði sér glaðan dag og ætluðu þær að skreppa í göngutúr og anda að sér frísku sumarloftinu í Agder sem rómað er meðal annars fyrir náttúrufegurð sína.

Þegar vinkonurnar skiluðu sér ekki hófu vinirnir leit og var illa brugðið þegar þeir komu að Tran látinni og vinkonunni stórslasaðri á malarveginum. Hófu vinirnir fyrstu hjálp felmtri slegnir og beittu henni í 20 mínútur, þar til sjúkraflutningafólk kom á staðinn, en var þá ljóst að lífi Daisy May Tran yrði ekki bjargað.

Þorir ekki að hugsa um fjölskyldu Tran

Lögreglan í Agder bað ökumenn, sem farið hefðu um svæðið aðfaranótt 2. júní, að gefa sig fram og bárust böndin fljótlega að 22 ára gömlum manni sem hafði ekið um svæðið umrædda nótt. Framburður hans kom hins vegar ekki heim og saman við gögn lögreglunnar og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald skömmu eftir að hafa orðið margsaga í framburði sínum.

Aðalmeðferð málsins er nú nýhafin fyrir héraðsdómi og hefur móðir ökumannsins, sem grunaður er um að hafa ekið ölvaður á konurnar, setið þinghaldið frá byrjun.

„Þetta var okkur hreint áfall,“ segir móðirin í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Þetta hefur verið okkur svo þungbært, hvort tveggja okkur [foreldrunum] og syni okkar. Þetta er skelfilegt slys sem aldrei hefði átt að verða,“ segir hún enn fremur.

„Þegar ég hugleiði hve illa mér líður þori ég ekki einu sinni að hugsa um hvernig fjölskyldu Daisy líður. Eða þá stúlkunnar sem slasaðist. Og öllum vinum þeirra,“ segir móðirin gráti nær við NRK.

Segist hafa verið sofandi heima

„Móðurhjartað mitt er rifið í sundur. Hann er grunaður um rangan framburð hjá lögreglu, mér hefði aldrei getað komið þetta í hug [...] Þessi helgi er það skelfilegasta sem ég hef upplifað á ævi minni,“ segir móðir ökumannsins grunaða örvingluð, en hann neitar sök og ber því við að hann muni ekkert eftir ökuferð sem náði yfir fimm norskar mílur, 50 kílómetra, nóttina örlagaríku.

Einnig hefur grunaði, sem var ákærður 9. október í fyrra, haldið því fram að hann hafi aldrei sest undir stýri umrædda nótt, heldur legið sofandi heima hjá sér. Annað sýna þó gögn frá farsíma hans sem tengdist næstu símamöstrum við svæðið þar sem ekið var á stúlkurnar umrædda nótt.

Móðir ákærða segir það hafa verið hreina martröð að sitja réttarhöldin og hlýða þar á vini hinnar látnu greina frá upplifun sinni umrætt kvöld. Hún er spurð út í viðbrögð sín hljóti hann dóm.

„Ég veit ekki hvað ég á að hugsa. Við tökum bara einn dag í einu,“ var svarið.

„Ég hata hann ekki“

Dang Nguyen Tran, faðir konunnar sem lést, kom frá Frakklandi til að vera viðstaddur réttarhöldin. „Ég hata hann ekki. En ég vonaðist til þess að hann sæi sóma sinn í að biðjast afsökunar við meðferð málsins,“ segir Tran við NRK.

Engin afsökunarbeiðni hefur þó litið dagsins ljós.

„Ég bíð bara eftir að dómurinn falli,“ segir faðirinn og bætir því við að hann gæti hið minnsta fundið frið í sál sinni fengi hann afsökunarbeiðni og játningu frá ákærða.

NRK

NRKII

VG

TV2

Dagbladet

mbl.is