Endurskoða dauðadóma

Frá mótmælunum í Íran í nóvember 2019.
Frá mótmælunum í Íran í nóvember 2019. AFP

Hæstiréttur Íran tilkynnti í dag að dómurinn myndi endurskoða dóma yfir þremur ungum mönnum, sem dæmdir voru til dauða fyrir tengsl sín við mótmæli gegn stjórnvöldum í nóvember 2019. 

Lögmenn mannanna þriggja fóru fram á endurupptöku málsins, en dauðadómunum hafði verið frestað af dómsmálayfirvöldum eftir að dómstóll tók til greina sönnunargögn sem eiga að hafa fundist í farsímum þremenninganna. 

Einn lögmannanna segir þremenningana vera hinn 26 ára Amirhossein Moradi, 28 ára Said Tamjidi og 26 ára Mohammad Rajabi. Þeir voru dæmdir til dauða fyrir að „ógna þjóðaröryggi“ og fyrir að kveikja í og eyðileggja opinberar byggingar með það að markmiði að „ráðast á írösk stjórnmál“.

Mótmæli brutust út í Íran á síðasta ári eftir að yfirvöld rúmlega tvöfölduðu olíuverð í landinu án fyrirvara. Allt að 400 létust í mótmælunum að sögn Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is