Auknar heimildir til lokana í Svíþjóð

Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar og Stefan Löfven forsætisráðherra.
Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar og Stefan Löfven forsætisráðherra. AFP

Ríkisstjórn Svíþjóðar lagði á mánudag fram frumvarp til nýrra sóttvarnalaga. Uppkast að lögunum var kynnt fyrir jól. Tilgangur laganna er að gefa ríkisstjórn og öðrum stjórnvöldum ríkari heimildir til að grípa inn í og takmarka útbreiðslu faraldurs með lokunum.

Mun ríkisstjórnin til að mynda geta sett reglugerðir um fjöldatakmarkanir, takmarkaðan opnunartíma og jafnvel lokanir á tiltekinni starfsemi. Allt eru þetta heimildir sem stjórnvöld á Íslandi og víða um heim hafa nýtt sér í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, en hafa ekki verið til staðar í Svíþjóð.

Aðgerðir Svía í baráttunni við faraldurinn hafa vakið athygli um heim allan. Í stað þess að beita boðum og bönnum hafa stjórnvöld reynt að höfða til skynsemi hvers og eins; hvatt fólk til að forðast hópamyndanir og halda sig sem mest heima. Sækja ekki verslanir að óþörfu, borða ekki á veitingastöðum, fara ekki í ræktina, vinna heima og þar fram eftir götunum án þess að nokkuð af þessu sé bannað.

Hefur því verið haldið fram að þessi „sænska leið“, eins og hún hefur verið kölluð, komi einkum til vegna þess að stjórnvöld hafa ekki haft önnur vopn í búri sínu.

Alls hafa 396.000 manns greinst með kórónuveiruna í Svíþjóð og tæplega 8.300 látist, eða um tífalt fleiri en á Íslandi miðað við höfðatölu.

Byrjað var að bólusetja í Svíþjóð í gær.
Byrjað var að bólusetja í Svíþjóð í gær. AFP

Taka gildi í janúar

En nú stendur sum sé til að veita stjórnvöldum tæki til að kveðja sænsku leiðina. Lögin hafa verið í vinnslu frá því í haust, en það var ekki fyrr en í dag sem frumvarpið var lagt fram

„Faraldurinn verður hér í langan tíma. Það þarf lagabreytingar til að hægt sé að innleiða markvissar sóttvarnaaðgerðir og einnig að opna á möguleikann á víðtækari lokunum,“ sagði Lena Hallengren heilbrigðisráðherra Svíþjóðar á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum.

Undir lögin munu falla almennar samkomur og viðburðir, menningar- og listastofnanir, verslanir, almenningssamgöngur, sem og önnur svæði sem notuð eru fyrir einkaviðburði. Brot á takmörkunum munu geta varðað sektum, milli 200 og 4.000 sænskra króna (3.000 - 60.000 ISK).

Lögin eru sérstaklega sett utan um kórónuveirufaraldurinn. Þau eiga að taka gildi 10. janúar 2021 og gilda út mars 2022.

SvD um frumvarpið

Fréttatilkynning um drög að frumvarpinu (sem hafa tekið breytingum)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert