Íslendingar í tilraunaríkinu

Fregnir af andláti sænku leiðarinnar eru stórlega ýktar.
Fregnir af andláti sænku leiðarinnar eru stórlega ýktar. AFP

Óhætt er að segja að viðbrögð Svía við kórónuveirufaraldrinum hafi vakið athygli um heim allan. Anders Tegnell sóttvarnalæknir Svía er orðinn heimilisvinur og „sænska leiðin“ er orðið að hugtaki sem á ekkert skylt við sterk verkalýðsfélög eða rauðar rósir.

En hversu ólík er sænska leiðin þeirri íslensku og hafa Svíar breytt um kúrs frá því í upphafi faraldurs? Mbl.is tók nokkra Íslendinga í Svíþjóð tali, þar á meðal heilbrigðisstarfsmenn og námsmenn.

Í grunninn má segja að leið Svía hafi byggt á því að halda bönnum í lágmarki og leggja frekar áherslu á tilmæli. „Þetta tengist lagakerfinu í Svíþjóð,“ segir Ari Kolbeinsson, sem vinnur við rannsóknir í háskóla í Vestra-Gautalandi. „Til þess að setja á harðar takmarkanir sem er hægt að framfylgja þá þarf að slökkva á réttindum. Sænska lagaapparatið býður ekki upp á það.“ 

Sænska ríkisstjórnin hefur ekki sama svigrúm og sú íslenska til að setja á bönn, og þær aðgerðir sem hún getur á annað borð gripið til þurfa að fara fyrir þingið „umsvifalaust“ (s. omedelbart) eftir gildistöku, samkæmt sænskum sóttvarnalögum. Ari telur að lagaumhverfið skýri það að „sænska leiðin“ hafi orðið til.

Reglur hertar en þó lítillega

Á mánudag dró til tíðinda á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Þar kynnti Stefan Löfven forsætisráðherra hörðustu aðgerðir sem gripið hefur verið til í landinu, og munar þar mest um átta manna samkomubann.

„Þetta er nýja normið. Ekki fara í lík­ams­rækt. Ekki fara á bóka­safnið. Ekki halda veisl­ur. Ekki fara í mat­ar­boð,“ sagði Löf­ven brúnaþungur. En þegar betur er að gáð gildir bannið þó ekki um neitt af þessu. Formlega gildir það aðeins um skipulögð mannamót á borð við íþrótta- og menn­ing­ar­viðburði, fyr­ir­lestr­a, tón­leik­a og mót­mæl­i.

„Skólahald, almenningssamgöngur, einkaviðburðir og verslanir falla ekki undir reglurnar,“ segir á síðu sænskra almannavarna.

Ari telur það vera með ráðum gert hjá forsætisráðherranum að skýra reglurnar ekki um of á fundinum. „Margir telja að hann hafi viljað setja meiri þyngd í þetta þannig að fólk haldi að það megi bara vera átta saman yfirhöfuð.“

„Þetta er eins nálægt því sem þu kemur nokkurn tímann …
„Þetta er eins nálægt því sem þu kemur nokkurn tímann til með að sjá sænskan pólitíkus segja: „Stoppið og hugsið. Ekki vera hálfvitar. Ég hef aldrei séð neinn sænskan stjórnmálamann vera svona harðorðan og sérstaklega ekki Löfven sem er venjulega frekar mildur og mjúkur,“ segir Ari Kolbeinsson, sem býr í smábænum Skövde í Vestur-Gautlandi. AFP

 

Þöggun í fjölmiðlum

Aníta Eyþórsdóttir, kona Ara, vinnur við greiningar á kórónuveirusýnum á sjúkrahúsi í Vestur-Gautlandi. Hún segir Svía gera sér vel grein fyrir því að eitthvað sé til sem heitir sænska leiðin. „Viðhorfið [til sænsku leiðarinnar] virðist vera dálítið skipt. Sumir taka þessu bara létt, hugsa að þetta sé bara sænska leiðin og hér sé enginn svo veikur.“

Heilbrigðisstarfsmenn líti málið þó alvarlegri augum. Aníta horfði á blaðamannafundinn með Löfven forsætisráðherra með samstarfsfólki sínu á rannsóknarstofunni á mánudag. „Við sátum allan tímann og jánkuðum bara. Þetta er það sem við erum búin að tala líka!“

Þau hjónin eru sammála um að nýjar reglur bendi til stefnubreytingar, bæði hjá yfirvöldum og almennum borgurum. „Á spjallþráðum og umræðusvæðum og í vinnunni hjá okkur báðum sjáum við mikla breytingu á hugarfari gagnvart þessari stefnu sem hefur verið í gangi og þessari sænsku leið. Fólk er að sjá að Tegnell [sóttvarnalæknir] og félagar hafa of oft haft rangt fyrir sér,“ segir Ari.

Upplýsingaflæði sé þó í mýflugumynd miðað við Ísland. Þannig uppfæri lýðheilsustofnunin (Folkhälsomyndigheten) lykilupplýsingar aðeins tvisvar í viku. „Það er ekki auðvelt að finna upplýsingar nema þú leitir sérstaklega eftir þeim,“ segir Aníta. „Meira að segja þeir sem vinna í heilbrigðiskerfinu tala um að það sé ákveðin þöggun í fjölmiðlum bæði um hversu mikið er og hversu alvarleg áhrif þetta hefur á fólk sem vinnur á sjúkrahúsunum,“ bætir Ari við. 

Heilbrigðisstarfsmenn lært af reynslunni

Linda Hrönn Hlynsdóttir býr í smábænum Mörlunda í Hultsfredskommúnu skammt frá Kalmar í Smálöndum. Hún hefur starfað þar sem sjúkraliði frá árinu 2016 og hefur því góðan samanburð á stöðunni fyrir og eftir Covid.

Hún segir álagið á starfsmenn vera mikið því auk þess sem verkefnum hafi fjölgað vanti starfsmenn, því þeir þurfi að vera heima sýni þeir minnstu kvefeinkenni.

Vandræði Svía vegna veirunnar hafa ekki síst komið fram á dvalarheimilum aldraðra, þar sem veiran náði að setjast að og dreifa sér. Á það sinn þátt í hárri dánartíðni í landinu, en 6.340 hafa látist úr veirunni í Svíþjóð, sem jafngildir því að um 230 hefðu dáið á Íslandi.

Linda telur að almennar reglur hafi þar sitt að segja, en líka þær reglur sem giltu á heilbrigðisstofnunum. „Í fyrri bylgjunni var opið frekar lengi fyrir aðstandendur inn á elliheimilin og starfsmenn held ég ekki eins varkárir að mæta ekki til vinnu ef þeir voru með væg einkenni,“ segir hún. „Ég held að við heilbrigðisstarfsmenn séum aðeins búin að átta okkur á því að þú þarft að vera heima við minnstu einkenni, og ég held að við séum aðeins búin að læra af því hvernig síðasta bylgja var.“

Nú ber hún til að mynda bæði grímu og andlitshlíf allan vinnudaginn. Belti og axlabönd, svo að segja.

Í síðustu viku tóku í gildi reglur um bann við …
Í síðustu viku tóku í gildi reglur um bann við sölu áfengis eftir klukkan 22. AFP

Linda segir almenning í Svíþjóð meðvitaðan um að landið skeri sig úr. „En fólki hérna finnst þetta eðlilegt og það er ekki jafnhrætt og það var í vor. Fólk er farið að slaka á þegar kemur að matarboðum og allskonar hömlum, sem er náttúrulega ekki gott. Þess vegna erum við hér í bylgju númer tvö.“

Nýgengi veirunnar, smit á 100.000 íbúa síðustu 14 daga, er um 573, samanborið við um 50 á Íslandi. 

Linda er ekki sérlega bjartsýn bjartsýn á að þær hertu aðgerðir sem minnst var á hér að framan skili miklu. „Ég hefði viljað sjá að við hefðum grímuskyldu á fleiri stöðum og að meira væri lokað. [...] Meira eins og Ísland er að gera þetta.“

Engin grímuskylda er hjá almennum borgurum í Svíþjóð eða tilmæli um slíka notkun, og eru þeir Íslendingar sem mbl.is ræddi við allir sammála um að grímunotkun heyri til algerra undantekninga. „Ef maður fer í búðina þá eru kannski þrír af hundrað með grímu,“ segir Linda.

Gæinn fann ekki fyrir Covid

Heiða Darradóttir flutti til Svíþjóðar í haust til að leggja stund á mastersnám í stærðfræðikennslu. Hún býr í bænum Skövde en er í háskóla í Gautaborg, í rúmlega klukkustundar fjarlægð.

Hún segir það hafa verið mikil viðbrigði að flytja út. Strax og þau hafi komið af flugvellinum hafi allar grímur fallið. „Hér í Skövde sér maður varla manneskjur með grímur. Ég var í Gautaborg í gær og þá voru örlítið fleiri með grímur, en samt innan við einn af hverjum tíu,“ segir hún.

Fyrir vikið segist Heiða ekki nota grímur sjálf, nema þegar hún ferðast til Gautaborgar á háannatímum. „Manni líður eitthvað svo asnalega þegar enginn annar er með grímu. Eins og maður sé eitthvað skrítinn bara,“ segir hún. Tilfinning sem fleiri deila sennilega.

Námið er þó allt á netinu og öll próf verða heimapróf, ólíkt því sem er í Háskóla Íslands.Þannig var því hins vegar ekki háttað í vor. Þá voru skólar að mestu opnir og kennsla með eðlilegum hætti. 

Heiðu finnst þeir háskólanemar sem hún hefur komst í kynni við fullkærulausir þegar kemur að veirunni. Þannig sé vinahópurinn hennar í Gautaborg gjarn á að fara í keilu eða á bari um helgar eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir tilmæli yfirvalda um að fólk hitti helst engan utan heimilisins.

„Ég hitti meira að segja einn gæja í lestinni fyrir nokkrum vikum sem sagði mér að hann hefði varla fundið fyrir fyrstu bylgjunni. Hann var bara í námi og mætti bara í tíma. Það virðist bara hafa verið eðlilegt líf hjá honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina