Piltarnir fimm sem sneru ekki aftur heim

Upphitun fyrir leik Rangers og Benfica á Ibrox-leikvanginum í nóvember.
Upphitun fyrir leik Rangers og Benfica á Ibrox-leikvanginum í nóvember. AFP

Átta unglingspiltar ganga hratt meðfram veginum og tala spenntir um daginn sem er framundan og þá fyrst og fremst leik Rangers gegn Celtic í skoska fótboltanum. Piltarnir eru á þriggja kílómetra göngu frá þorpinu Markinch, þar sem þeir búa, í átt að bænum Glenrothes.

Þar munu rútur keyra með stuðningsmenn liðanna til borgarinnar Glasgow til að fylgjast með leiknum.

Piltarnir eru nánir, enda eru heimili þeirra aðeins í nokkurra metra fjarlægð hvert frá öðru. Það eina sem sundrar þeim á einhvern hátt er liturinn á treyjum liðanna sem þeir klæðast. Þrír eru í grænum Celtic-treyjum og hinir fimm í bláum Rangers-treyjum.

Þegar þeir fara um borð í sitthvora rútuna, hrópa þeir vinalega hver til annars og veifa áður en ekið er af stað. Átta skólafélagar, sá yngsti aðeins 13 ára, á leiðinni í ferðalag til að horfa á fótboltaleik. Aðeins þrír þeirra snúa aftur heim.

Þannig hefst umfjöllun BBC um harmleikinn á Ibrox-leikvanginum í Glasgow sem átti sér stað 2. janúar 1971, eða fyrir nákvæmlega 50 árum, þegar 66 fórust og yfir 140 manns slösuðust.

Ibrox gat eitt sinn tekið við tæplega 120 þúsund stuðningsmönnum en því var breytt og fyrir fimmtíu árum máttu um 80 þúsund manns vera þar staddir. 

Markinch-piltarnir sem studdu Celtic, þeir Shane Fenton, Peter Lee og Joe Mitchell gengu í átt að vesturenda leikvangsins til að hitta hina stuðningsmenn liðsins. Hinir fimm piltarnir, Bryan Todd, Ronald Paton, Peter Easton, Mason Philip og Douglas Morrison, fóru hinum megin á leikvanginn, fyrir aftan markið, til að styðja við bakið á Rangers.

Ibrox-leikvangurinn.
Ibrox-leikvangurinn. Ljósmynd/Reuters

Fyrstu 89 mínúturnar tíðindalitlar

Fyrstu 89 mínúturnar var lítið að gerast í þessum fræga nágrannaslag. Þá skoraði Celtic og skömmu síðar jöfnuðu Rangers.

„Leikurinn sjálfur var ekkert merkilegur,“ rifjar Easton upp. „Celtic skoraði markið og við ákváðum að fara svo við myndum sleppa við allan áhorfendaskarann vegna þess að það var alltaf mikill troðningur þegar við vorum á leiðinni út af vellinum.

„Við áttuðum okkur ekki á því fyrr en sumir af eldri gaurunum komu seinna í rútuna að Rangers höfðu jafnað á síðustu mínútunni.“

Eftir kröftugar lokamínútur flautaði dómarinn Willie Anderson til leiksloka klukkan 16.41. Kynnir leiksins Kenneth McFarlane sagði í hátalarakerfinu að „áhorfendur eru beðnir um að fara varlega er þeir yfirgefa leikvanginn“.

Aðeins nokkrum mínútum síðar höfðu hundruð stuðningsmanna liðanna troðist undir í einum mesta harmleik af þessum toga á breskum íþróttaleikvangi.

Allt fór á versta veg

Douglas, Peter, Ronald, Mason og Bryan reyndu ásamt hópi stuðningsmanna Rangers að komast að útganginum þar sem rútunum sem áttu að flytja þá heim hafði verið lagt. Þeir gengu í átt að stiga 13. Þar gat verið mikill troðningur eftir leiki en ljóst var að eitthvað var frábrugðið þennan dag. Fyrstu merkin um að eitthvað mikið væri að var þegar hvítum vasaklútum var veifað upp í loftið.

Enginn gat hreyft sig í stiganum og á sama tíma hélt fólk áfram að streyma að. Handrið sem áttu að aðskilja stuðningsmennina gáfu sig og allt fór á versta veg. Einn sem fylgdist með úr fjarlægð sagði að þetta hafi litið út eins og „á sem var að flæða yfir bakka sína“.

Þeir sem féllu til jarðar lentu hver ofan á öðrum og útlimir sneru í allar áttir. Erfitt reyndist að kalla á hjálp vegna þess að menn gátu ekki andað og varla heyrðist múkk. 

Dóu standandi

Sumir dóu standandi á meðan aðrir reyndu hvað þeir gátu til að koma sér úr þrengslunum. Lítið var um að það blæddi úr fólki og fá bein brotnuðu. Þó nokkur vitni lýstu atburðinum þannig að fórnarlömbin sem köfnuðu litu út fyrir að vera sofandi.

Lögreglunni tókst loksins að létta á þrýstingum og keðja manna var mynduð frá efsta þrepinu til þess neðsta til að sækja þá sem höfðu látist eða slasast. Á svæði sem var ekki stærra en 18 metra kassi höfðu 66 manns látist.

Fimm af Markinch-piltunum voru á meðal þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert