Rán á hóteleiganda fyrir rétt

Grand hótelið er í eigu Jacqueline Veyrac.
Grand hótelið er í eigu Jacqueline Veyrac. AFP

Ítalskur matreiðslumeistari, breskur uppgjafahermaður og einkaspæjari eru meðal þeirra 13 sem réttað verður yfir í Frakklandi í dag vegna ráns á ríkri aldraðri konu fyrir rúmum fjórum árum.

Jacqueline Veyrac, sem er áttræð að aldri, á fimm stjörnu hótel í Cannes, Grand Hotel, auk þess þekktan veitingastað í Nice, La Réserve. Henni var rænt á götu úti 24. október 2016 og hent aftur í sendibifreið þar sem hún fannst bundin og kefluð tveimur dögum síðar. 

Fyrrverandi framkvæmdastjóri La Réserve, Giuseppe Serena, er grunaður um að vera höfuðpaurinn í málinu en hann lagði fæð á Veyrac eftir að hún sagði upp samning hans árið 2009.

Serena er sakaður um að hafa lagt á ráðin um að ræna henni og krefjast lausnargjalds. Peningana ætlaði hann að nýta í að setja á laggirnar nýjan veitingastað en Serena hefur nú verið lýstur gjaldþrota. 

Vitorðsmenn hafa bent á Serena sem verkbeiðenda og höfuðpaur í málinu en hann er einnig sakaður um að hafa gert tilraun til að ræna Veyrac árið 2013. Serena hefur setið í gæsluvarðhaldi í meira en fjögur ár en hann neitar enn sök. 

Tveir grímuklæddir menn fönguðu Veyrac þegar hún var að fara inn í bif­reið sína og komu henni fyrir í sendibifreiðinni. Það var ekki fyrr en tveimur dög­um síðar sem hún losnaði úr prísundinni þegar veg­far­andi rak aug­un í hana þar sem hún lá bund­in og kefluð á gólfi sendi­bif­reiðarinnar við fáfarna götu í Nice. Annar mannræningjanna hótaði að drepa hana ef hún gæfi frá sér hljóð. Jafnframt var hún neydd til að drekka deyfilyf. 

Veyrac reyndi að kalla á hjálp og barði á hurð bifreiðarinnar. Það var ekki fyrr en henni tókst að losa sig að hluta að hún náði að vekja athygli vegfaranda á sér.

Fyrrverandi hermaðurinn Philip Dutton, sem er 52 ára Breti, hefur játað aðild að mannráninu. Dutton er einnig sakaður um að hafa tekið þátt í undirbúningi mannránsins árið 2013. Hann lagði fram lausnarkröfu til ættingja Veyrac en hún hljóðaði upp á 5 milljónir evra. Dutton átti að halda 10% hlut en 50% áttu að renna til Serena. Afganginum átti að skipta á milli annarra vitorðsmanna að sögn lögreglu.

Meðal þeirra er fyrrverandi ljósmyndari, Luc Goursolas, sem skipti um starfsvettvang og hætti að starfa sem æsifréttaljósmyndari (paparazz) og varð einkaspæjari. Goursolas er sakaður um að hafa komið fyrir eftirlitsbúnaði í bifreið Veyrac þannig að hægt væri að fylgjast með ferðum hennar. Eins eru þrír félagar í glæpagengi úr fátækrahverfi Nice sakaðir um að hafa framið mannránið. 

Jacqueline Veyrac erfði Grand hótelið í Cannes eftir eiginmann sinn en hótelið er afar vinsælt meðal gesta á kvikmyndahátíðinni í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert