Vísað úr landi fyrir sóttvarnabrot

Héraðsdómur Óslóar úrskurðaði að rúmensku vændiskonunum fjórum skyldi vísað úr …
Héraðsdómur Óslóar úrskurðaði að rúmensku vændiskonunum fjórum skyldi vísað úr landi vegna stórfelldra og ítrekaðra brota gegn sóttvarnareglum og verður úrskurðinum framfylgt á morgun. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Héraðsdómur Óslóar hefur úrskurðað að fjórum rúmenskum vændiskonum verði vísað úr landi á morgun, miðvikudag, fyrir ítrekuð og alvarleg brot gegn sóttvarnareglum norskra stjórnvalda.

Konurnar voru handteknar 8. janúar þegar lögregla komst á snoðir um að engin þeirra hefði hafið dvöl sína í Noregi í tíu daga sóttkví þegar þær komu til landsins í nóvember og desember. Þvert á móti hefðu þær þegar hafið starfsemi sína og haft til samans um 120 viðskiptavini á viku auk þess að búa allar saman í íbúð.

„Lögreglan lítur það mjög alvarlegum augum að þær hafi haft samneyti við viðskiptavini nýkomnar til landsins. Því hefur verið stofnað til brottvísunarmáls gegn konunum fjórum,“ segir Anders Valen Mørland, lögmaður við útlendingaeftirlitsdeild lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Brottvísunin tímabundið úrræði

Mørland segir lögregluna hafa farið yfir SMS-skeyti í símum rúmensku kvennanna og með því sýnt fram á að þær hefðu látið reglur um tíu daga sóttkví og sóttvarnir aðrar sem vind um eyru þjóta.

Auk framangreinds hafi íbúðin, sem Rúmenarnir höfðu til umráða, engan veginn uppfyllt kröfur um sóttvarnir. „Miðað við framburð þeirra hjá lögreglu og aðkomuna í íbúðinni teljum við starfsemi kvennanna hafa haft umtalsverða smithættu í för með sér,“ segir lögmaðurinn enn fremur.

Brottvísunin er þó aðeins tímabundið úrræði gagnvart borgurum Evrópusambandsríkja og geta konurnar því snúið aftur til Noregs áður en langt um líður, uppfylli þær almennar kröfur um landvist.

Útlendingastofnun Noregs, UDI, upplýsir NRK í tölvupósti um að forsendur séu fyrir því að vísa útlendingum úr landi hafi þeir sérstaka smithættu í för með sér og háttsemi þeirra brjóti í bága við opinberar ráðleggingar og leiðbeiningar í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

„Það getur til dæmis átt við um ítrekað návígi við annað fólk þar sem ekki er gætt að fjarlægðarreglu og sóttkvíarreglur virtar að vettugi,“ skrifar Camilla Torgersen, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, í pósti sínum til NRK.

NRK

VG

Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert