„Staða konunnar er í Hvíta húsinu“

Þegar Kamala Harris sver embættiseið á miðvikudag markar það ákveðin tímamót. Hún verður fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna, sú fyrsta sem er svört, sú fyrsta sem er af indverskum uppruna. En ekki nóg með það heldur markar fjölskylda hennar einnig tímamót í sögu Hvíta hússins að því er segir í grein New York Times í dag.

Doug Emhoff og Kamala Harris.
Doug Emhoff og Kamala Harris. AFP

Talið er að þetta geti markað upphaf að nýrri hugsun um fjölskylduna í bandarísku samfélagi. Fjölskyldan er líka tilbúin fyrir stóru stundina. Systurdóttir Harris, Meena Harris, gengur nú um í bol sem segir frænka varaforsetans. Stjúpdóttir hennar, Ella Emhoff, listnemi í New York, ætlaði að hanna fötin sjálf við athöfnina en harðneitar að vera í kjól. Kerstin Emhoff, fyrrverandi eiginkona Emhoffs og móðir stjúpbarna Harris, ætlar að mæta líka og skrifar blaðamaður NYT að hún muni kannski kippa kryddvendi með enda telur hún nauðsynlegt að hreinsa aðeins loftið í þinghúsinu. Að sjálfsögðu mætir eiginmaður Harris, Doug Emhoff, og mun væntanlega taka fullt af myndum að eiginkonunni við athöfnina enda gríðarlega stoltur af framgöngu hennar í stjórnmálum og á farsíma hans stendur: Staða konunnar er í Hvíta húsinu.

Fjölskyldan hefur lengi verið hornsteinn í hefðbundnum gildum Bandaríkjamanna. Eitthvað sem allir geta sammælst um segir sagnfræðingurinn Nancy F. Cott í viðtali við NYT. Fjölskyldan er einnig mikilvæg í stjórnmálum og getur haft góð áhrif á vinsældir stjórnmálamanna.

„Þetta er eftirtektarvert,“ segir Ralph Richard Banks, prófessor í lögum við Stanford-háskóla, en hann hefur skrifað töluvert um kynþátt, kynferði og fjölskyldumynstur. Hann segir Harris-Emhoff-fjölskylduna fulltrúa ólíkra fjölskyldna í Bandaríkjunum og hvernig þær eru að breytast.

AFP

Í dag er eitt af hverjum sex hjónaböndum í Bandaríkjunum blandað, það er að hjónin eru af ólíkum kynstofni. Foreldrar Harris eru innflytjendur, móðir hennar frá Indlandi en faðir frá Jamaíku. Hún ólst upp við tvenns konar trúarbrögð; kristni og hindú, en eiginmaður hennar er hvítur gyðingur. Eftir að þau gengu í hjónaband hefur Harris einnig tekið þátt í athöfnum gyðinga með honum.

Hún var á fertugsaldri þegar þau gengu í hjónaband, sem er kannski hærra en meðaltalið  hvað varðar bandarískar konur en það fer hækkandi líkt og víðast á Vesturlöndum. Emhoff er fráskilinn og á tvö börn af fyrra hjónabandi. Þannig að börn hans eru líkt og fjórðungur barna í Bandaríkjunum – búa ekki með báðum líffræðilegum foreldrum sínum. Harris á ekki börn sjálf en segir að það að vera momala stjúpbarna sinna sé það hlutverk sitt í lífinu sem hún telji mikilvægast.

AFP

Þegar Harris ávarpaði þing demókrata í ágúst talaði hún um móður sína, Shyamölu Gopalan Harris, sem kom til Bandaríkjanna sem innflytjandi á unglingsárunum með þann draum að vinna við krabbameinsrannsóknir. Hún ól Kamölu og systur hennar, Mayu, ein upp eftir að hún og eiginmaður hennar skildu. Þegar Maya varð ófrísk 17 ára og eignaðist Meenu stækkaði fjölskyldan úr þremur í fjóra.

Emhoff fæddist í New York og ólst upp í New Jersey og úthverfi Los Angeles. Foreldrar hans Barb og Mike stofnuðu til að mynda facebookhópinn Grandparents for Biden fyrir kosningarnar. Emhoff var kvæntur Kerstin Emhoff í 16 ár og þau eiga Cole, 26 ára, og Ellu, 21 árs. Nöfnin koma frá þekktu tónlistarfólki, John Coltrane og Ellu Fitzgerald.

NYT vísar í lýsingu Kerstin á hjónabandinu sem segir að það hafi verið mjög hefðbundið. Doug sá um fjármálin, hún sá um heimilið. Bæði unnu fullt starf og segir hún að það hafi verið eitt af því sem tengdi þau saman – ástríða fyrir vinnunni. Börn þeirra voru í grunnskóla þegar foreldrarnir skildu og Doug flutti í íbúð skammt frá heimilinu. Þau segjast hafa lært að bjarga sér sjálf á þessum tíma, það er þegar þau voru hjá pabba sínum enda hafði mamma þeirra alltaf séð um heimilið og pabbi þeirra vonlaus kokkur. 

Emhoff verður fyrsti karlinn sem er maki forseta og varaforseta Bandaríkjanna. Hlutverk sem er án starfslýsingar, launa og formlegra skylduverka. Venjulega eru eiginkonur forseta og varaforseta gestgjafar og skreyta fyrir hátíðarnar. Auk þess að tímarit birta smákökuuppskriftir frá þeim.

Kamala Harris sver embættiseið á miðvikudag.
Kamala Harris sver embættiseið á miðvikudag. AFP

Fjölmargir makar hafa sinnt verkefnum tengdum börnum meðan á dvölinni í Hvíta húsinu stendur. Til að mynda var Laura Bush áberandi varðandi menntun barna, Michelle Obama bætt mataræði barna og Jill Biden verkefni tengd börnum hermanna. Melania Trump barðist gegn einelti á þeim tíma sem hún var forsetafrú.

Cole og Ella eru undirbúin undir miklar breytingar á næstunni en þau hafa lítið séð af föður sínum og Harris undanfarið vegna mikilla anna hjá eldri kynslóðinni. Doug og Kamala eru þau einu úr fjölskyldunni sem munu búa í Washington þannig að fjölskyldan á von á því að fjölskyldukvöldverðirnir á sunnudögum, sem eru hefð hjá þeim, verði á Zoom líkt og undanfarna mánuði. Þau eiga aftur á móti von á því að Kamala hafi minni tíma til að galdra fram mexíkóskan chilirétt sem allir í fjölskyldunni elska; chili rellenos.

Hér er hægt að lesa grein NYT í heild.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert