Sagður hafa keypt hús handa fjölskyldu Floyds

Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets.
Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets. AFP

Fyrrverandi leikmaður í NBA-deildinni í körfubolta segir að Kyrie Irving, bakvörður Brooklyn Nets, hafi keypt hús handa fjölskyldu George Floyds sem var drepinn af lögreglumanni í Minnesota á síðasta ári.

Stephen Jackson greindi frá þessu í hlaðvarpsþætti með öðrum fyrrverandi NBA-leikmanni, Etan Thomas. Hann sagðist hafa þekkt Floyd og að hann hefði reynt að halda áfram að styðja við bakið á fjölskyldu hans bæði tilfinningalega og fjárhagslega eftir að hann lést. Benti hann í leiðinni á fleiri sem hefðu gert slíkt hið sama.

„Kyrie Irving keypti handa þeim hús,“ sagði Jackson. „Umboðsmaður Lil Wayne keypti handa þeim Mercedes-Benz. Barbra Streisand gaf þeim hlutabréf í Disney.“

Lögreglumaðurinn Derek Chauvin hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt Floyd, þeldökkan Bandaríkjamann, sem var 46 ára þegar hann lést 25. maí. Chauvin þrýsti hné sínu á háls Floyds í átta mínútur með þeim afleiðingum að Floyd missti andann.

Málið vakti mikla reiði í Bandaríkjunum og óeirðir brutust út víða.

mbl.is