Falin fátækt í Japan kemur í ljós

„Ég var vanur að sjá heimilislaust fólk en nú virðist sem margt ungt fólk sé líka komið í þessa stöðu,“ segir Yuichiro, heimilislaus maður í Tókíó. Heimsfaraldurinn hefur ýtt fleiri Japönum í fátækt og mun fleiri þurfa nú að hafa næturdvöl á stöðum eins og lestarstöðvum í þessu auðuga landi sem hefur lengi búið að sterku velferðarkerfi.

Yuichiro er 46 ára gamall og það er ekki auðvelt fyrir hann að ræða við fréttamenn AFP-fréttaveitunnar, horfir hvorki í myndavélina né á viðmælanda sinn og ættarnafnið vildi hann ekki gefa upp. Japanir eru auðvitað þekktir fyrir stolt sitt og vinnusemi og vel þekkt er að fólk keyri sig út í starfi sínu og vinni þar til það er að niðurlotum komið. Hins vegar er enga vinnu að fá fyrir Yuchiro sem táraðist þegar hann tók við matargjöf í miðborg Tókíó fyrr í mánuðinum.   

Yuichiro með matargjöfina sem hann tók við í Tókíó fyrr …
Yuichiro með matargjöfina sem hann tók við í Tókíó fyrr í mánuðinum. Vinnusemi japönsku þjóðarinnar er vel þekkt og það er ekki auðvelt fyrir fólk að þiggja matargjafir í japönsku samfélagi. AFP

Efnahagur Japans er sá þriðji stærsti í heimi og þrátt fyrir mannmergð hafa 4.500 manns látið lífið í landinu af völdum Covid-19 sem þykir ekki mikið í landi þar sem 125 milljónir búa. Ekki hefur heldur þótt ástæða til að takamarka ferðir fólks jafn mikið í Japan og víða annars staðar. 

Sjálfboðaliðar undirbúa matargjöf í Ikebukuro-hverfinu í Tókíó fyrr í mánuðinum.
Sjálfboðaliðar undirbúa matargjöf í Ikebukuro-hverfinu í Tókíó fyrr í mánuðinum. AFP

Opinberar tölur um atvinnuleysi segja það vera í kringum þrjú prósent sem myndi þykja gott hvar sem er en heimildarmenn AFP segja það þó aðeins segja hálfa söguna. Stórir hópar fólks séu einungis í hlutavinnu eða vinni í illa launuðum störfum til skamms tíma. 

Beðið eftir matargjöf.
Beðið eftir matargjöf. AFP

„Faraldurinn, aukið atvinnuleysi og lægri laun hafa komið verst niður á hópnum sem rétt náði að komast af áður,“ segir Ren Ohnishi sem stýrir samtökunum Moyai Support Centre for Independent Living sem berjast gegn fátækt. Hann segir 40% vinnuaflsins vera í skammtímastörfum á lágum launum þar sem starfsöryggi sé afar lítið. Þetta veiti fólki takmörkuð réttindi í velferðarkerfinu.  

Matargjöf Moyai Support Centre for Independent Living-samtakanna. Pökkum af þessu …
Matargjöf Moyai Support Centre for Independent Living-samtakanna. Pökkum af þessu tagi var dreift í Shinjuku-hverfinu í Tókíó. AFP

Að sögn Yuichiro gekk hann á milli ólíkra skrifstofa í velferðarkerfinu þar til að honum var loks tjáð að aðstoðin væri einungis fyrir barnafólk. „En hér eru fjölmargir fullorðnir sem fá ekki að borða,“ segir hann.  

Ren Onishi berst gegn fátækt í Japan. Hann segir lágar …
Ren Onishi berst gegn fátækt í Japan. Hann segir lágar atvinnuleysistölur einungis segja hálfa söguna. AFP
Fólk kemur sér fyrir Ikebukuro-hverfinu í Tókíó eftir að hafa …
Fólk kemur sér fyrir Ikebukuro-hverfinu í Tókíó eftir að hafa þegið matargjafir. AFP
mbl.is