Hyggst ekki „endurræsa“ samskiptin við Rússa

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti lagði til í dag að New START-afvopnunarsamningurinn yrði framlengdur um fimm ár. Hann hét því hins vegar að hann myndi þrýsta á Rússa vegna ýmissa deilumála ríkjanna, og er því ljóst að hann hyggst ekki „endurræsa“ samskiptin, líkt og síðustu fjórir fyrirrennarar hans hafa reynt.

New START-samkomulagið takmarkar þann fjölda kjarnorkuodda sem Bandaríkin og Rússland mega eiga við 1.550 odda hvort ríki. Samkomulagið á að renna út 5. febrúar næstkomandi, en samningaviðræður um framhald þess fjöruðu út í tíð Donalds Trump í Hvíta húsinu.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti bauð þá fimm ára framlengingu á samningnum, en það er hámarkstímalengd slíkrar framlengingar sem samkomulagið býður upp á. Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Bidens, sagði að slík framlenging væri sérlega gott skref þegar samskipti ríkjanna væru fjandsamleg líkt og nú.

Þá sagði Psaki að Avril Haines, sem Biden hefur útnefnt í stöðu yfirmanns njósnamála, myndi hefja rannsókn á meintri eitrun rússneskra stjórnvalda á Alexei Navalní, sem og ásökunum um að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á nýafstaðnar forsetakosningar. Þá yrði einnig kannað hver ábyrgð rússneskra stjórnvalda sé á SolarWinds-tölvuárásinni í lok síðasta árs. 

Þá munu bandarísk stjórnvöld einnig rannsaka ásakanir um að Rússar hafi sett fé til höfuðs bandarískum hermönnum í Afganistan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert