Hvað er vitað um stöðuna í Mjanmar?

Innflytjendur frá Mjanmar mótmæltu handtöku Aung San Suu Kyi fyrir …
Innflytjendur frá Mjanmar mótmæltu handtöku Aung San Suu Kyi fyrir utan sendiráð landsins í Bangkok í dag. AFP

Margra vikna spenna á milli ríkisstjórnar Mjanmar, sem Aung San Suu Kyi leiðir, og hersins í landinu var undanfari valdatöku hersins í nótt. Suu Kyi og aðrir mikilvægir stjórnmálamenn voru teknir höndum af hermönnum á sama degi og nýtt þing átti að koma saman í fyrsta sinn síðan kosningar voru haldnar í nóvember síðastliðnum. 

Hér að neðan er samantekt um það sem vitað er um stöðuna til þessa. 

Suu Kyi er enn gífurlega vinsæl í Mjanmar þrátt fyrir að mannorð hennar á alþjóðavettvangi hafi beðið hnekki vegna harðræðis hennar gegn ríkisfangslausum minnihlutahópi rohingja í landinu árið 2017. 

Flokkur hennar, NLD, sópaði að sér atkvæðum í fyrra og sigraði með yfirburðum, jafnvel meiri yfirburðum en árið 2015 þegar hún komst til valda. 

En herinn í landinu, sem hefur haldið þétt um stjórnartaumana síðustu 60 árin og farið með stjórnina flest þeirra ára, segir að kosningarnar hafi ekki farið fram með viðeigandi hætti. Herinn segist hafa afhjúpað fleiri en 10 milljónir tilfella kosningasvindls og hefur hann krafist þess að kjörstjórnin opinberi kjósendalista svo möguleiki sé að rannsaka meint kosningasvindl betur. 

Persónur og leikendur. Hér sést fólkið sem leikur stærstu hlutvekin …
Persónur og leikendur. Hér sést fólkið sem leikur stærstu hlutvekin í valdabaráttunni. Efst til vinstri er forsetinn Win Myint. Aung San Suu Kyi ríkisráðgjafi sést efst til hægri. Myint Swe er hér neðst til vinstri, hann mun fara með völd forseta undir herstjórninni. Neðst til hægri er svo Min Aung Hlaing hershöfðingi sem segja má að verði valdamesti maður Mjanmar í herstjórninni. AFP

Spenna á milli ríkisstjórnarinnar og hersins jókst eftir að Min Aung Hlaing hershöfðingi, sem er talinn einn valdamesti maður í Mjanmar, hélt ræðu þar sem hann varaði við því að mögulegt væri að afturkalla stjórnarskrá landsins ef hún væri ekki virt. 

Í síðustu viku voru skriðdrekar um skamman tíma á götum borgarinnar Yangon, höfuðborgarinnar Naypidaw og víðar. Á sömu götum mótmæltu stuðningsmenn hersins kosningaúrslitunum. 

Hvað gerist næst? 

Herinn hefur lýst yfir neyðarástandi og segist ætla að halda völdum næstu tólf mánuði. Myint Swe, fyrrverandi hershöfðingi sem stjórnaði hinni öflugu herstjórn Yangon, er núverandi varaforseti Mjanmar en hann mun starfa sem forseti landsins næsta árið. 

Í yfirlýsingu sem lesin var upp á Myawaddy-sjónvarpsstöðinni og undirrituð var af Myint Swe sagði hann að stjórn yfir löggjöf, stjórnsýslu og dómsvaldi hefði verið afhent áðurnefndum Min Ang Hlaing hershöfðingja. Með því varð stjórn landsins aftur í höndum hersins. 

Aðgerðasinnar halda á mynd af ríkisráðgjafanum.
Aðgerðasinnar halda á mynd af ríkisráðgjafanum. AFP

Hefur þetta gerst áður? 

Mjanmar hefur verið stjórnað af hernum lengst af síðan landið öðlaðist sjálfstæði frá fyrrum nýlenduveldi Bretlands árið 1948. Ne Win hershöfðingi batt endi á borgaralega stjórn árið 1962 og sagði að hún væri ekki nægilega hæf til að stjórna landinu. 

Hann stýrði landinu þá næstu 26 árin en lét af störfum árið 1988 eftir mikil mótmæli á landsvísu gegn efnahagslegri stöðnun og valdstjórn. 

Ný kynslóð hershöfðingja tók svo við stjórninni nokkrum vikum síðar með þeim formerkjum að mikilvægt væri að koma á lögum og reglu í landinu.

Hershöfðinginn Than Shwe lét af embætti árið 2011 og afhenti stjórn fyrrum hershöfðingja vald yfir landinu. Nokkrum árum áður, eða árið 2008, hafði Shwe samþykkt núverandi stjórnarskrá landsins. 

Suu Kyi enn gífurlega vinsæl í Mjanmar þrátt fyrir að …
Suu Kyi enn gífurlega vinsæl í Mjanmar þrátt fyrir að mannorð hennar á alþjóðavettvangi hafi beðið hnekki vegna harðræðis hennar gegn ríkisfangslausum minnihlutahóp rohingja í landinu árið 2017. AFP

Mun stjórnarskráin standa? 

Stjórnarskrá landsins kveður á um áframhaldandi stórt pólitískt hlutverk hersins. Þannig stjórnar herinn t.a.m. bæði varnarmála- og landamæraráðuneytum landsins. Þingmenn hersins eiga fjórðung þingsæta í þingi landsins og þurfa allar breytingar innanlands samþykki þeirra. 

Stjórnarskráin er óvinsælt plagg í Mjanmar vegna áðurnefndra pólitískra valda sem hún veitir hernum, að sögn Khin Zaw Win, stjórnmálaskýranda í Yangon. 

Suu Kyi og ríkisstjórn hennar hafa reynt að gera breytingar á stjórnarskránni síðan þau sigruðu fyrst í kosningum árið 2015, með litlum árangri. 

Á síðasta kjörtímabili sniðgengu Suu Kyi og ríkisstjórn hennar reglu sem kom í veg fyrir það að hún tæki við embætti forseta með því að taka í reynd að sér leiðtogahlutverk „ríkisráðgjafa“.

Þessi glufa í stjórnarskránni sem Suu Kyi nýtti sér er ein af mörgum sem herinn sá ekki fyrir, að sögn Soe Myint Aung stjórnmálaskýranda. 

„Frá þeirra sjónarhóli hefur herinn misst umtalsverða stjórn á hinu pólitíska ferli,“ sagði hann í samtali við AFP.

Ríkisstjórnir víða um heim hafa fordæmt valdatöku hersins í Mjanmar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert