Starfsmaður Bidens í leyfi eftir hótun

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Varaupplýsingafulltrúi Hvíta hússins, T.J. Ducklo, hefur verið settur í vikulangt ólaunað leyfi eftir að í ljós kom að hann hótaði blaðamanni sem vann að grein um rómantískt samband hans við blaðamann Axios, Alexi McCammond. McCammond sá um umfjöllun Axios um forsetakosningarnar sem fram fóru í nóvember. 

Vanity Fair greinir frá því að Ducklo hafi hótað og notað niðrandi orðalag gagnvart blaðamanni Politico, Töru Palmeri þegar Palmeri spurði Ducklo út í samband hans og McCammond. 

„Ég mun rústa þér,“ á Ducklo að hafa sagt við Palmeri auk þess sem hann hótaði að eyðileggja feril hennar ef hún hætti ekki við að birta frétt um samband hans við McCammond.

Beðist afsökunar

Í kjölfar samtals Ducklo og Palmeri 20. janúar hafði ritstjóri Politico samband við háttsetta embættismenn í Hvíta húsinu, meðal annarra Jen Psaki upplýsingafulltrúa ríkisstjórnar Biden. Samkvæmt Psaki hefur Ducklo beðið Palmeri afsökunar og viðurkennir hann að framkoma hans hafi verið óforsvaranleg. 

„Ég grínast ekki þegar ég segi þetta: Ef þú vinnur með mér og ég heyri þig koma illa fram við kollega, sýna honum ekki virðingu eða tala niður til hans, ég lofa þér að ég mun reka þig á staðnum,“ sagði Biden 21. janúar í ávarpi til starfsmanna sinna, en Politico hefur vakið athygli á ummælunum í ljósi framkomu Ducklo.

mbl.is