Hani drap eiganda sinn með hníf

Hanaat er vinsælt víða á Indlandi þrátt fyrir að vera …
Hanaat er vinsælt víða á Indlandi þrátt fyrir að vera ólöglegt. AFP

Indverskur maður sem hafði fest hníf við fót hana í hans eigu, til að gera hann hættulegri í hanaati sem eigandinn ætlaði sér að græða á, lét lífið eftir að haninn veitti honum áverka með hnífnum.

Maðurinn hlaut djúpa skurði á lærsvæði og nára sem blæddi mikið úr. Honum blæddi út áður en hægt var að flytja hann á sjúkrahús.

Maðurinn var einn af 16 skipuleggjendum hanaatsins, sem er ólöglegt og fór fram í Lothunur-þorpinu á sunnanverðu Indlandi. Nú stendur yfir umfangsmikil leit lögreglu að samverkamönnum hans en þeir eiga á hættu á að verða ákærðir fyrir margvísleg brot, þar á meðal manndráp af gáleysi.

Haninn var í haldi lögreglu um nokkra stund áður en honum var komið fyrir á alifuglabúi.

Hanaat er ólögleg en vinsæl iðja, sérstaklega í dreifbýli þar sem eftirlit er minna. Hanar eru ræktaðir sérstaklega fyrir atið og 7,5 sentimetra hnífur festur við lappir þeirra áður en þeir eru látnir berjast til dauða.

Hanar eru ræktaðir og svo seldir til einstaklinga sem ætla …
Hanar eru ræktaðir og svo seldir til einstaklinga sem ætla að græða pening á hanaati. AFP
mbl.is