Flóðbylgjuviðvörun eftir snarpan skjálfta

Jarðskjálfti upp á 6,9 stig skók Nýja-Sjáland skömmu fyrir klukkan hálf tvö aðfaranótt föstudags að staðartíma. Varað hefur verið við flóðbylgjum í kjölfar skjálftans.

Bandaríska jarðskjálftamiðstöðin (USGS) sagði að upptök skjálftans hefðu verið um 180 kílómetra norðaustur af borginni Gisborne, þar sem skjálftinn fannst vel sem og í fleiri borgum landsins.

Varað er við flóðbylgjum á svæði í 300 kílómetra radíus frá upptökum skjálftans.

Fram kemur í nýsjálenskum fjölmiðlum að fólk sem búi við ströndina sé hvatt til að koma sér inn til landsins eins fljótt og auðið er.

Upptök skjálftans voru um 180 kílómetra norðaustur af borginni Gisborne.
Upptök skjálftans voru um 180 kílómetra norðaustur af borginni Gisborne. Kort/USGS
mbl.is