Rússar hægja á virkni Twitter

Fólk skoðar farsíma sína á neðanjarðarlestarstöð í Moskvu í dag.
Fólk skoðar farsíma sína á neðanjarðarlestarstöð í Moskvu í dag. AFP

Rússnesk yfirvöld ætla að hægja á virkni Twitter í landinu vegna þess að samfélagsmiðillinn fjarlægði ekki „ólöglegt“ efni af síðum sínum.

Þetta er nýjasta aðgerð Rússa til auka yfirráð sín yfir erlendum tæknirisum.

Rússar hafa þrengt að samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Twitter og YouTube á undanförnum mánuðum fyrir að hafa hýst efni þar sem stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní er sýndur stuðningur.

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Stofnunin Roskomnadzor, sem hefur eftirlit með fjölmiðlum í Rússlandi, sagði að nýjustu aðgerðunum gagnvart Twitter sé ætlað að „vernda rússneska ríkisborgara“ eftir að Twitter varð ekki við ósk þeirra um að eyða efni sem tengist barnaníði, eiturlyfjanotkun og hvatningu til barna til að fremja sjálfsvíg.

Stofnunin minnti ekkert á hvatningarorð sem hafa verið uppi á síðunni um að taka þátt í mótmælum til að krefjast lausnar Navalnís, sem reittu ráðamenn til reiði fyrr á þessu ári.

Að sögn Roskomnadzor fela aðgerðirnar gagnvart Twitter í sér að „hægja á hraða á þjónustu“ fyrir alla farsímanotendur og 50% þeirra sem nota tölvur á annan hátt. Síðar bætti stofnunin við að aðgerðirnar muni aðeins hafa áhrif á efni með ljósmyndum og myndböndum.

mbl.is