Trump segir McConnell heimskan aumingja

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur ekki miklar mætur á samflokksmanni …
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur ekki miklar mætur á samflokksmanni sínum, Mitch McConnell. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sparaði ekki stóru orðin á fundi sem hann hélt með helstu styrktaraðilum sínum og framámönnum í Repúblikanaflokknum á sunnudag. Trump beindi kröftum sínum helst að því að gagnrýna þingmenn eigin flokks, sér í lagi leiðtoga flokksins í öldungadeildinni, Mitch McConnell.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að forsetinn fyrrverandi hafi endurtekið fyrri ósannindi um að hann hafi í raun unnið forsetakosningarnar í nóvember og álasaði hann Mitch McConnell fyrir að hafa ekki reynt að fá úrslitum kosninganna hnekkt 6. janúar, þegar Bandaríkjaþing kom saman til að staðfesta úrslitin  nokkuð sem á að heita formsatriði.

Alls greiddu 147 þingmenn repúblikana, 139 úr fulltrúadeild og átta úr öldungadeild, atkvæði gegn staðfestingu en McConnell var ekki þeirra á meðal. McConnell viðurkenndi sigur Bidens í desember eftir að kjörmannaráðið hafði komið saman og greitt atkvæði.

Á fundinum á sunnudag sagði Trump að McConnell væri heimskur og kallaði hann aumingja (e. stone cold loser). Þá furðaði hann sig á því að McConnell hefði ekki þakkað honum fyrir að ráða konuna hans, Elaine Chao, í embætti samgönguráðherra. „Ég réð konuna hans. Þakkaði hann mér einhvern tímann fyrir?“ spurði Trump og hæddist síðar að Chao fyrir að hafa sagt af sér embætti. Það gerði hún degi eftir árásina á bandaríska þinghúsið.

Þá sagðist Trump vonsvikinn með eigin varaforseta, Mike Pence, fyrir hlutverk hans í að staðfesta úrslit forsetakosninganna.

Mitch McConnell var ekki viðstaddur fund Trumps, sem fram fór á heimili hans í Mar-a-Lago. Washington Post segir McConnell hafa sagt ráðgjöfum sínum að hann hafi ekki talað við Trump svo mánuðum skipti og hann sjái ekki fyrir sér að gera það nokkurn tímann aftur.

mbl.is