Þrettán ára ók út af

Ökumaðurinn, þrettán ára gamall, ók út af og stórskemmdi bifreiðina …
Ökumaðurinn, þrettán ára gamall, ók út af og stórskemmdi bifreiðina auk þess sem farþegarnir þrír slösuðust allir. Slysið varð á Vestre Andebuvei í Sandefjord í Suður-Noregi. Ljósmynd/Vegfarandi/Peder Gjersøe

Þrjár stúlkur á aldrinum 13 til 16 ára, farþegar í bifreið foreldra einnar þeirra, sem þrettán ára gamall vinur stúlknanna ók, eru slasaðar eftir að ökumaðurinn ungi missti stjórn á bifreiðinni og ók út af veginum í Andebu í Sandefjord í Suður-Noregi á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Í fyrstu var talið að ein stúlknanna væri í lífshættu og var sjúkraþyrla send á vettvang, en ástand hennar reyndist sem betur fór ekki svo alvarlegt og voru tvær stúlknanna fluttar með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið í nágrannabænum Tønsberg til aðhlynningar, en sú þriðja, sem minnstar bar benjarnar, var færð á læknavakt í Sandefjord.

Ökumaðurinn sjálfur komst óskaddaður frá akstrinum, en bifreiðin, sem föruneytið tók ófrjálsri hendi á heimili einnar stúlknanna, er stórskemmd og var flutt af vettvangi með kranabifreið.

„Við munum ræða við þau sem tengjast málinu í dag,“ segir Fredrik Borg Johannesen, lögmaður lögreglunnar í suðausturumdæminu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í morgun. Lögregla hafði klukkan sex í morgun að norskum tíma ekki frekari upplýsingar um líðan stúlknanna tveggja sem fluttar voru til Tønsberg.

NRK

ABC Nyheter

Sandefjord Blad (læst áskriftarsíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert