Stefna á að 70% fái eina bólusetningu fyrir 4. júlí

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur kynnt áætlanir stjórnvalda um að búið verði að bólusetja 70% fullorðinna að minnsta kosti einu sinni fyrir þjóðhátíðardag landsins, 4. júlí, og að fljótlega verði farið að bólusetja börn á aldrinum 12-15 ára fáist heimild lyfjaeftirlitsins til að bólusetja þau.

Miðað við þessi nýju markmið Bidens er stefnt að því að 160 milljónir Bandaríkjamanna verði fullbólusettar fyrir 4. júlí. Samkvæmt frétt BBC er líklegt að þetta markmið náist en þegar hafa 105 milljónir verið bólusettar þar í landi og í Bandaríkjunum sé um ein milljón bólusett við Covid-19 á degi hverjum.

Aftur á móti eru mun færri að mæta í bólusetningu nú en fyrir þremur vikum og er eitt af því sem Biden segir að unnið sé að, að sannfæra þá sem efast um mikilvægi bólusetninga. 

Ísrael er leiðandi í bólusetningum og þar er allt athafnalíf komið í gang. Þar virðist kórónuveiran að mestu horfin, að minnsta kosti greinast örfáir þar um þessar mundir. Rúmlega 60% landsmanna hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt bólusetningar.

Biden kynnti í gær nýjan vef: vaccines.gov þar sem auðvelt er að finna upplýsingar um bólusetningar, hvar sé hægt að láta bólusetja sig og fleira þessu tengt.

Í Bandaríkjunum hefur Matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) veitt bóluefni Pfizer markaðsleyfi fyrir 16 ára og eldri og er gert ráð fyrir að í næstu viku fái lyfjafyrirtækið heimild til að nota bóluefnið á 12-15 ára gömul börn. Að sögn Biden mun hann ekki hafa afskipti af ferlinu hjá FDA en ef markaðsleyfið verður veitt séu stjórnvöld tilbúin til að grípa til aðgerða strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert