Ásakanir um óttastjórnun í félagi Gates

Starfsmenn Cascade Investment segja óttastjórnun vera við líði á vinnustaðnum. …
Starfsmenn Cascade Investment segja óttastjórnun vera við líði á vinnustaðnum. Félagið er í eigu Gates-hjónanna. AFP

Minnst fjórir starfsmenn eignarhalds- og fjárfestingafélagsins Cascade Investment, sem er í eigu Bill Gates, hafa sakað Michael Larson, framkvæmdastjóra félagsins um óviðeigandi háttsemi og óttastjórnun. Larson hefur séð um eignastýringu fyrir Bill Gates í hartnær 27 ár, segir í umfjöllun New York Times.

Í umfjöllun blaðsins segir að Larson hafi ítrekað farið yfir mörk starfsmanna félagsins og að á vinnustaðnum ríki óttamenning. Meginhlutverk félagsins er að hafa umsjón með gríðarlegum fjármunum hjónanna Bill Gates og Melinda French Gates, sem standa nú í skilnaði.

Halda samstarfinu áfram þrátt fyrir skilnað

Bill og Melinda segja að þau ætli að halda samstarfi sínu innan félagsins áfram. „Við deilum ennþá þeirri trú sem við höfum á verkefnið og munum halda samstarfi okkar hjá félaginu áfram, þó við sjáum okkur ekki fært að vaxa saman sem par lengur,“ segir Melinda á Twitter þann 3. maí.

Í skilnaðarbeiðni hennar segir að hjónabandi þeirra sé „óbjargandi“ og skrifuðu hjónin undir samkomulag sem ætlað er að útiloka ákveðin ágreiningsmál sem gætu komið upp í tengslum við skilnaðinn. Samkomulagið kom þó ekki í veg fyrir ítarlega umfjöllun fjölmiðla um skilnaðinn, hegðun Bill og tengsl hans við hinn svívirta fjárfesti Jeffrey Epstein.

Sýndi kollegum sínum nektarmyndir

Fyrrum starfsmenn Cascade Investments segja í viðtali við New York Times að Larson hafi „dæmt kvenkyns starfsmenn út frá útliti, sýnt kollegum sínum nektarmyndur af konum á internetinu og oftar en einu sinni látið óviðeigandi kynferðisleg ummæli falla.“ Hann hafi einnig sýnt starfsmanni af afrískum uppruna kynþáttafordóma, segir í umfjölluninni.

Að sögn starfsmanna hafi Larson einnig lagt starfsmenn félagsins í einelti. „Þegar einn starfsmaður tilkynnti uppsögn sína hjá félaginu hefndi Larson sín á henni með tilraun til þess að lækka verð á hlutabréfum fyrirtækisins sem hún hugðist hefja störf hjá,“ segir starfsmaður í viðtali við Times.

Í kjölfar birtingar á umfjöllun Times gaf talsmaður Cascade út tilkynningu til stuðnings Larson: „Á starfstímabili sínu hefur Larson stýrt 380 manns. Þær kvartanir sem beinast að honum og hafa verið tilkynntar eru færri en fimm talsins. Þær voru allar litnar mjög alvarlegum augum og voru teknar til sérstakrar skoðunar en engin haldbær rök fundust fyrir neinni þeirra,“ segir hann.

Félagið er oft kennt við eigendur þess og er þá kallað Bill and Melinda Gates Investments eða BMGI.

„Að segja að það ríki eitruð menning innan BMGI er ósanngjarnt gagnvart þeim 160 sérfræðingum sem mynda teymi okkar og menningu“, segir Larson í viðtali við Times.

„Melinda fordæmir tvímælalaust virðingarleysi og óviðeigandi háttsemi innan vinnustaðarins. Flestar þessara ásakana fóru framhjá Melindu vegna lítils eignarhalds hennar og skorts á stjórn innan BMGI,“ segir Courtney Wade, talskona Melinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert