Trump höfðar mál gegn Facebook, Twitter og Google

Donald Trump, á samkomu repúblíkana í síðustu viku.
Donald Trump, á samkomu repúblíkana í síðustu viku. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, tilkynnti rétt í þessu að hann hygðist höfða mál á hendur tæknifyrirtækjunum Facebook, Twitter og Google.

Málsóknin er liður í áralangri baráttu Trump gegn ritskoðun tæknirisanna að eigin sögn. 

Sagði Trump, þegar hann tilkynnti um málsóknina, að hún væri sömuleiðis sótt á hendur framkvæmdastjóra fyrirtækjanna, Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, Sundar Pichai, framkvæmdastjóra Alphabet innan Google-samstæðunnar, og Jack Dorsey, forstjóra Twitter. Kallaði hann þá sömuleiðis í kaldhæðni „mjög vingjarnlega gaura“.

Bætti hann við að stærstu tæknifyrirtæki Bandaríkjanna hefðu tekið sér dómaravald og beitt ritskoðun sem stangast á við stjórnarskrána. 

Aðgangi Trump að miðlunum Twitter og Facebook var lokað eftirminnilega í kjölfar atburðanna á Capitol Hill, þegar æstur múgur braust inn í þinghús Bandaríkjanna, þann 6. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert