Hvernig kemst maður út í geim?

Blue Origin á leiðinni út í geim í dag.
Blue Origin á leiðinni út í geim í dag. AFP

Það styttist í að ævintýrafólki og adrenalínfíklum úr röðum almennings gefist kostur á að láta skjóta sér út í geiminn. Það eina sem þarf til er dálítil þolinmæði og nóg af peningum.

Hér að neðan er farið yfir stöðu mála þegar kemur að geimferðalögum fyrir almenning.

Hverjir eru að bjóða upp á ferðalög út í geim?

Tvö fyrirtæki bjóða upp á stuttar ferðir sem taka einungis nokkrar mínútur: Blue Origin í eigu Jeffs Bezoz og Virgin Galactic sem Richard Branson stofnaði. Báðir auðjöfrarnir hafa þegar farið út í geiminn í geimförum sínum. Hvort þeirra tekur sex farþega.

Hvenær geturðu farið?

Að sögn Virgin Galactic hefst farþegaflug út í geiminn á næsta ári eftir að tvö reynsluflug til viðbótar hafa verið farin. Biðlistinn er nú þegar orðinn ansi langur, því 600 manns hafa tryggt sér miða. Fyrirtækið býst við því að fara, á einhverjum tímapunkti, í allt að 400 ferðir á ári. Hægt er að vinna sæti í einu af fyrstu geimferðunum í happdrætti og lýkur skráningu 1. september.

Sir Richard Branson eftir að hann sneri aftur úr sinni …
Sir Richard Branson eftir að hann sneri aftur úr sinni geimferð. AFP

Blue Origin ætlar í tvær flugferðir til viðbótar á þessu ári og síðan í „margar fleiri“ á því næsta.

Annar möguleiki til að komast út í geiminn er í gegnum væntanlegan raunveruleikasjónvarpsþátt, Space Hero. Sigurvegari í honum fær að heimsækja Alþjóðlegu geimstöðina árið 2023.

Hvað mun þetta kosta?

Fyrstu miðarnir sem Virgin Galactic seldi fóru á 200.000 til 250.000 dollara, eða um 25 til 30 milljónir króna. Verðið gæti hækkað þegar fram líða stundir.

Blue Origin hefur ekki birt verðskrá sína.

Þeir sem eiga ekki nógan pening, en ansi mikið þó, gætu eytt 125.000 dollurum, eða um 15 milljónum króna, í sæti um borð í Space Neptune. Það er hylki sem býður upp á 360 gráðu útsýni úr mikilli hæð en fer þó ekki alla leið út í þyngdarleysið í geimnum. 300 sæti hafa þegar verið seld vegna fyrstu ferðarinnar árið 2024.

Hópurinn sem flaug út í geim með Blue Origin. Frá …
Hópurinn sem flaug út í geim með Blue Origin. Frá vinstri: Mark Bezos, Jeff Bezos, Oliver Daemen og Wally Funk. AFP

Eru strangar kröfur um að vera í góðu formi?

Nei. Þú þarf aðeins að vera í þokkalegu formi. Æfingabúðir Virgin Galactic standa yfir í aðeins fimm daga. Þau hjá Blue Origin lofa að kenna þér allt sem þú þarft að vita „daginn áður en þú tekur á loft“. Á meðal þeirra sem voru í fyrstu ferð Blue Origin fyrr í dag var Wally Funk, sem varð um leið elsti geimfarinn, 82 ára að aldri.

Á meðal þess sem fyrirtækið krefst er að þú getir gengið upp sjö hæðir í stiga á innan við 90 sekúndum, að hæð þín sé á bilinu 152 til 192 sm og að þú sért 50 til 100 kíló að þyngd.

Jeff Bezoz, til hægri, að geimferðinni lokinni.
Jeff Bezoz, til hægri, að geimferðinni lokinni. AFP

Hvað um Space X?

Fyrirtæki Elons Musk, stofnanda Tesla, ætlar einnig að bjóða upp á geimferðalög en þær ferðir verða mun lengri. Kostnaðurinn fyrir hvern og einn verður líkast til stjarnfræðilegur, eða tugir milljóna dollara.

Elon Musk.
Elon Musk. AFP
mbl.is