2.000 kvikmyndafilmur brunnu til kaldra kola

2.000 kvikmyndaafrit brunnu inni í vöruhúsinu.
2.000 kvikmyndaafrit brunnu inni í vöruhúsinu. AFP

Eldur kom upp í Cinemateca Brasileira-vöruhúsinu í brasilísku borginni São Paulo á fimmtudag, aðeins mánuði eftir að starfsmenn vöruhússins höfðu varað við eldhættu í húsinu. 2.000 kvikmyndafilmur eyðilögðust í brunanum.

Erfiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins en fimmtán slökkviliðsbílar og á fimmta tug slökkviliðsmanna börðust við eldinn í meira en tvo klukkutíma. Talsverðar skemmdir urðu á vöruhúsinu, að því er greint er frá í frétt AFP.

Saka forseta Brasilíu um vanrækslu

Eldurinn kviknaði um sexleytið þegar unnið var að viðgerðum á loftræstikerfi hússins, segir slökkviliðið. Þá brunnu minnst tvö herbergi, full af kvikmyndafilmum og öðrum skjölum til kaldra kola.

Eldfimar filmurnar ollu því að eldurinn breiddist hratt um bygginguna.

Kvikmyndargerðarmenn, listamenn og starfsmenn hafa sakað hægri stjórn Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, um að vanrækja kvikmyndahúsið.

Í júlí 2020 höfðaði ríkissaksóknarinn í São Paulo mál gegn stjórnvöldum fyrir vanrækslu og ófullnægjandi fjármögnun stofnunarinnar.

„Fyrirsjáanlegur harmleikur“

Eldurinn var „fyrirsjáanlegur harmleikur“, segir kvikmyndagagnrýnandinn Lauro Esorel í viðtali við sjónvarpsstöðina Globo News.

Í apríl vöruðu starfsmenn vöruhússins við eldhættunni sem stafaði af skorti á viðhaldi byggingarinnar og áminntu um aðgát við geymslu efnis, búnaðar og gagnagrunns sem þar var geymt.

Á árunum 2015 og 2018 brunnu portúgalska tungumálasafnið og þjóðminjasafnið í Rio de Janeiro til kaldra kola. Tapaðist þar 200 ára gamalt safn af menningarsögu Brasilíu.

Verndunarsinnar hafa kallað eftir því að betur verði gætt að menningar- og vísindaarfleið landsins og fjármögnun til þess aukin.

mbl.is