Varasamt að skalla boltann

Að fá fullkomna sendingu „beint á pönnuna“ er ekki hættulaust.
Að fá fullkomna sendingu „beint á pönnuna“ er ekki hættulaust. AFP

Varnarmenn í fótbolta eru líklegri til þess að verða fyrir skemmdum á heila og upplifa heilabilun og minnisglöp síðar á ævi sinni en leikmenn sem spila aðrar stöður á vellinum.

Orsökin er talin vera hversu oft þeir skalla boltann. Þetta kemur fram í rannsókn sem framkvæmd var í háskólanum í Glasgow. Ný gögn sem birtast í rannsókninni eru talin „týndi hlekkurinn“ hvað varðar heilabilun hjá fótboltamönnum síðar á ævinni.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að markmenn séu í sambærilegri hættu og almenningur á því að verða fyrir heilabilun síðar á ævinni. Líkurnar fjórfölduðust þegar útileikmenn voru bornir saman við markmenn, og fimmfaldaðist hvað varðar varnarmenn. Þá hefur lengd ferilsins einnig áhrif, þ.e. þeim mun lengri ferill, þeim mun meiri líkur á heilabilun síðar á ævinni. 

Fótbolti án skallabolta?

Willie Stewart, prófessor við háskólann í Glasgow, segir um rannsóknina: „Við erum á þeim stað, eða gögnin segja okkur það, að fótbolti ætti í raun að vera kynntur með fyrirvara um heilsuspillandi áhrif hans. Eitthvað eins og „að skalla boltann síendurtekið kann að leiða til þess að líkur á heilabilun aukast“.“

Hann bætir við: „Ólíkt öðrum orsökum heilabilana vitum við hver áhættuþátturinn hér er, og það er fullkomlega hægt að koma í veg fyrir hann.“

Þá veltir hann vöngum um það hvort skallar séu bráðnauðsynlegir fótboltanum. „Eru auknar líkur á heilabilun ómissandi þáttur íþróttarinnar eða er hægt að finna aðrar lausnir í fótboltanum.“

Þá segir hann einnig að ef þessu yrði breytt nú í dag tæki það engu að síður 30-40 ár að sjá áhrif breytinganna.

mbl.is