Sjö sekir um morð á 19 ára stúlku

Aya Hachem var skotin til bana í fyrra.
Aya Hachem var skotin til bana í fyrra. Ljósmynd/Lögreglan í Lancashire-héraði/PA

Sjö menn hafa verið fundnir sekir um að hafa myrt unga konu sem var skotin til bana í deilu á milli eigenda tveggja dekkjafyrirtækja.

Aya Hachem, 19 ára, var fyrir mistök drepin í skotárás úr bíl í ensku borginni Blackburn 17. maí í fyrra.

Feroz Suleman, fertugur eigandi dekkjafyrirtækisins RI Tyres, hafði fyrirskipað morð á Pachah Khan, keppinauti sínum frá Quickshine Tyres, en byssumaðurinn skaut í staðinn Hachem til bana.

Sjö af átta manns sem voru leiddir fyrir rétt voru fundnir sekir um að hafa myrt Hachem. Suleman var einn þeirra, að sögn BBC.

Breskur lögreglubíll.
Breskur lögreglubíll. Ljósmynd/Wikipedia

Á röngum stað á röngum tíma

Hachem var skotin þegar hún var á leið í matvöruverslun til að kaupa í matinn fyrir fjölskyldu sína að loknum föstumánuðinum Ramadan. Hún stundaði nám í Salford-háskóla og var sögð hafa verið „á röngum stað á röngum tíma” eftir að langvarandi deila nágrannafyrirtækjanna tveggja endaði með skotárásinni.

Eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp sagði fjölskylda Hachem að hún yrði „að eilífu í hjörtum okkar”.

„Við erum svo stolt af þér og söknum þín afar mikið. Líf okkar eru ekki þau sömu án þín,” bættu þau við.

„Þú varst lífsglöð og þrátt fyrir öll vandamálin og hindranirnar sem við þurftum að glíma við í þessu landi kom það ekki í veg fyrir að þú lagðir þitt af mörkum til samfélagsins og góðgerðarfélaga, þar á meðal „Children´s Society” og til fjáröflunar fyrir Salford-háskóla þar sem þú stundaðir nám í lögfræði.”

Dularfull íkveikja 

Deila fyrirtækjanna tveggja hófst snemma árs 2019 þegar Quickshine Tyres, sem áður bauð eingöngu upp á bílaþvott, byrjaði að selja dekk í næsta húsnæði við RI Tyres.

Deilan harðnaði þriðja desember sama ár þegar einhver kveikti í RI Tyres snemma morguns.

Enn hélt deilan áfram þegar Suleman, eigandi Ri Tyres, hringdi í lögregluna 1. maí í fyrra og sagði að Khan, eigandi Quickshine Tyres, hefði komið í veg fyrir að starfsmenn á hans vegum fengju að ljúka við að hengja upp nýtt skilti fyrir fyrirtæki sitt.

Dómur verður kveðinn upp yfir sjömenningunum seku á morgun. 

mbl.is