Talíbanar sagðir hafa ráðist gegn konunum

Talíbanar mættu kröfugöngu kvenna í Kabúl, höfuðborg Afganistans, með hörðu, að sögn mótmælenda. Konurnar segja að talíbanarnir hafi ráðist gegn þeim með táragas og piparúða að vopni þegar þær reyndu að ganga í átt til forsetahallarinnar. 

Talíbanar halda því aftur á móti fram að mótmælin hafi farið úr böndunum, samkvæmt afganska fjölmiðlinum Tolo News. 

Nokkur mótmæli kvenna hafa farið fram í Kabúl og Herat á síðustu dögum. Myndskeiðið hér að ofan er frá mótmælum í Herat á fimmtudag. Myndskeiðið hér að neðan er frá mótmælunum í dag.

Segir talíbana hafa beitt barsmíðum

Konurnar hafa krafist þess að þær fái að vinna og verði með í ríkisstjórn landsins. Talíbanar segjast ætla að tilkynna um nýja ríkisstjórn landsins á næstu dögum. Þeir hafa gefið það út að konur muni geta tekið þátt í stjórnmálum en að þeim verði ekki heimilt að gegna ráðherraembættum. 

Margar konur óttast það sem koma skal í Afganistan eftir að talíbanar náðu þar völdum. Þegar þeir voru síðast við völd takmörkuðu þeir réttindi kvenna verulega. Þær voru m.a. neyddar til að hylja andlit sín og líkama utandyra. 

Soroya, kona sem mótmælti í dag, sagði við Reuters: „Þeir börðu líka konur í höfuðið með byssuskefti og það blæddi úr þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert