Ræddu saman í fyrsta sinn í sjö mánuði

Xi Jinping og Biden á samsettri mynd.
Xi Jinping og Biden á samsettri mynd. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, ræddu saman í fyrsta sinn í sjö mánuði í gær.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu kemur fram að báðir leiðtogarnir hafi „rætt ábyrgðina sem hvílir á herðum beggja þjóða um að tryggja að samkeppni leiði ekki til deilna”.

Forsetarnir ræddu saman í gegnum síma í 90 mínútur. Biden varaði við því að misskilningur gæti leitt til deilna á milli Washington og Peking, að sögn Hvíta hússins, á meðan Xi lagði áherslu á nýja stefnu í samskiptum þjóðanna en þau hafi verið uppfull af „alvarlegum vandamálum”.

Samskipti landanna tveggja tóku dýfu niður á við þegar Donald Trump, forveri Bidens, var í embætti forseta og efndi til viðskiptastríðs á milli Bandaríkjanna og Kína. Einnig gagnrýndi hann kínversk stjórnvöld harðlega fyrir viðbrögð sín við kórónuveirufaraldrinum.

mbl.is