B-2 sprengjuflugvél brotlenti

Litlar upplýsingar hafa verið gefnar um slysið en talið er …
Litlar upplýsingar hafa verið gefnar um slysið en talið er líklegt að sprengjuvélin hafi misst þrýsting á glussakerfi í aðflugi sem olli því að lendingarbúnaður gaf sig.

Bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni Nort­hrop Grumman B-2 brotlenti í fyrradag á Whiteman-herflugvelli í Missouri, heimavelli vélanna.

Þetta er í annað skipti sem flugvél af þessari gerð brotlendir en vélin er metin á um 100 milljarða króna. Bandaríkjamenn smíðuðu alls 21 B-2 vél á árunum 1994-2000.

Sluppu heilir frá en vélin laskaðist

Flugmenn sprengjuvélarinnar sluppu heilir frá, en vélin sjálf virðist hafa laskast verulega við brotlendinguna.

Viðvera B-2 vélar á öryggissvæðinu í Keflavík vakti athygli á dögunum en þrjár slíkar voru við æfingar við Íslandsstrendur í lok ágúst þegar þær æfðu meðal annars yfir Atlantshafi með flugsveitum frá Bretlandi og Noregi.

B-2 kjarnasprengjuflugvél í Keflavík.
B-2 kjarnasprengjuflugvél í Keflavík. Ljósmynd/Bandaríski flugherinn

Litlar upplýsingar hafa verið gefnar um slysið en talið er líklegt að sprengjuvélin hafi misst þrýsting á glussakerfi í aðflugi sem olli því að lendingarbúnaður gaf sig.

Engar ljósmyndir hafa verið gefnar út né lekið á netið, að undanskilinni gervitunglamynd sem sýnir vélina hvíla utan flugbrautar á vinstri væng.

Tvær vélar brunnið

Fyrra flugslysið var á Kyrrahafseyjunni Guam árið 2008. sú vél brann til kaldra kola eftir að hafa brotlent eftir rakabilun í tölvukerfi.

Auk slysanna tveggja hefur að auki ein önnur B-2 sprengjuvél skemmst en hún brann að hluta til í í flugskýli og tók þrjú ár að gera hana upp. Talið er líklegt að Whiteman-vélin verði einnig gerð upp, enda kostar stykkið sem fyrr segir 100 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert