216 þúsund fórnarlömb barnaníðinga

Jean-Marc Sauve, formaður nefndarinnar á blaðamannafundi í morgun.
Jean-Marc Sauve, formaður nefndarinnar á blaðamannafundi í morgun. AFP

Fórnarlömb barnaníðinga sem hafa starfað innan kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi frá árinu 1950 eru að minnsta kosti 216 þúsund talsins.

Þetta kemur fram í skýrslu sjálfstæðrar rannsóknarnefndar sem var birt í morgun eftir tveggja og hálfs árs rannsókn.

Þegar starfsmenn á borð við kennara við kaþólska skóla eru taldir með hækkar talan í 330 þúsund fórnarlömb á þessu sjö áratuga skeiði.

„Þessar tölur valda áhyggjum og rúmlega það. Þær ber að fordæma og við þeim verður að bregðast,“ sagði formaður nefndarinnar, Jean-Marc Sauve, á blaðamannafundi.

„Þangað til snemma á fyrsta áratugi þessarar aldar sýndi kaþólska kirkjan gríðarlega mikið og jafnvel grimmilegt áhugaleysi í garð fórnarlambanna,“ sagði hann.

Kaþólskir biskupar í messu í Frakklandi árið 2005.
Kaþólskir biskupar í messu í Frakklandi árið 2005. AFP

Erkibiskupinn Eric de Moulins-Beaufort, formaður Samtaka biskupa í Frakklandi sem óskuðu eftir rannsókninni, lýsti yfir „skömm og hryllingi“ vegna niðurstöðu skýrslunnar.

„Í dag vil ég biðja hvert og eitt ykkar fyrirgefningar,“ sagði hann á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert