Trump sagður hafa falið níu milljarða skuld

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fullyrti opinberlega að hann hefði þénað tugi milljóna bandaríkjadala á hótelrekstri sínum í Washington-borg í forsetatíð sinni á árunum 2017 til 2021.

Birting á opinberum skjölum eftirlitsnefndar Hvíta hússins hefur þó leitt í ljós að hann hafi safnað rúmlega 70 milljónum bandaríkjadala í skuld vegna hótelrekstursins á tímabilinu eða því sem nemur níu milljörðum íslenskra króna.

Tók erlent lán og fékk greiðslufrest framlengdan

Skjölin sýna einnig að hótelið hafi hlotið greiðslur sem hlaupa á milljónum bandaríkjadala frá erlendum stjórnvöldum og til frestunar á lánum. Trump hafi ekki gefið þessar greiðslur upp sem hafi vakið upp spurningar um mögulega hagsmunaárekstra í forsetatíð hans, að því er fréttastofa CNN greinir frá.

Er þetta í fyrsta sinn sem rannsakendur á vegum þingsins hafa yfirfarið og birt fjárhagsupplýsingar um forsetann fyrrverandi. Forsvarsmenn Trump-stofnunarinnar, sem er fyrirtæki Donalds Trumps, hafa gagnrýnt niðurstöðu rannsóknarinnar og neitað allri sök.

Héraðssaksóknari í Manhattan og dómsmálaráðherra New York-ríkis hafa báðir farið yfir fjárhag Trump en hvorugur þeirra gefið út opinberlega yfirlýsingu í tengslum við málið.

Hótelið Trump International í Washington, DC.
Hótelið Trump International í Washington, DC. AFP

Breytt í stofnframlög

Tekjur Trumps vegna reksturs á Trump International hótelinu námu yfir 156 milljónum bandaríkjadala á árunum 2016-2020, að því er rannsóknarnefndin greindi frá í gær.

Samkvæmt yfirlýsingu nefndarinnar virðist sem Trump hafi þó raunar tapað 70 milljónum bandaríkjadala á rekstri hótelsins og þurft að taka lán upp á rúmar 27 milljónir bandaríkjadala frá DJT Holdings LLC, einu eignarhaldsfélaga Trumps, frá árunum 2017-2020.

Að sögn rannsóknarnefndarinnar hafa 24 milljónir af þessu 27 milljóna láni enn ekki verið endurgreiddar. Þess í stað hafi þeim verið breytt í stofnframlög. Þá sýni greining á skjölunum að hótel Trump hafi einnig hlotið 3,7 milljónir bandaríkjadala frá erlendum stjórnvöldum sem hafi vakið grunsemdir nefndarinnar um hugsanleg brot á ákvæðum stjórnarskránnar um þóknun frá erlendum aðilum.

Talsmaður Deutsche Bank segir það rangt að kjörum á framkvæmdaláni …
Talsmaður Deutsche Bank segir það rangt að kjörum á framkvæmdaláni sem Trump tók hjá bankanum hafi verið breytt. AFP

Talsmenn Trump og Deutsche Bank neita sök

Skjölin sýni einnig að Trump hafi hlotið ívilnun á framkvæmdaláni upp á 170 milljón bandaríkjadali frá Deutsche Bank sem gerði honum kleift að fresta endurgreiðslum inn á höfuðstól lánsins um sex ár.

Í yfirlýsingu frá talsmanni Trump-stofnunarinnar segir að niðurstaða nefndarinnar sé „villandi, ábyrgðarlaus og algerlega röng“ og að nefndin hafi „misskilið grundvallarreglur bókhalds, þ.m.t. muninn á vergum tekjum og hreinum hagnaði“.

„Í einföldu máli er þessi skýrsla ekkert annað en örvæntingarfull tilraun til þess að villa um fyrir almennum borgurum Bandaríkjanna og að svívirða Trump,“ segir hann.

Deutsche Bank hefur einnig sakað rannsóknarnefndina um „ónákvæmar yfirlýsingar“ um starfsemi bankans og lánasamning hans. Lánakjörin hafi ekki breyst og engum greiðslum hafi verið frestað.

mbl.is
Loka