Svipta kínverskt fjarskiptafyrirtæki starfsleyfi

5G farsímamastur.
5G farsímamastur. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum sviptu kínverska fjarskiptafyrirtækið China Telcom starfsleyfi í dag á grundvelli þjóðaröryggissjónarmiða. Þau þurfa að láta af starfsemi innan Bandaríkjanna innan 60 daga.

Að sögn bandarískra yfirvalda hefur kínverska ríkisstjórnin slík völd yfir fyrirtækinu að hún gæti hæglega nálgast, vistað og truflað samskipti í gegnum það. Þetta aðgengi að fjarskiptum veitti þeim þar af leiðandi þann möguleika að njósna um samskipti eða þaðan af verra.

Bjóða þjónustu í 110 löndum

Talsmenn China Telecom segja ákvörðunina vonbrigði og segjast ætla að leita allra færra leiða til þess að halda áfram að þjónusta viðskiptavini sína. Fyrirtækið hefur verið starfrækt í tæpa tvo áratugi.

China Telecom er einn af þremur fjarskiptarisum Kína og þjónustar hundruð þúsunda viðskipavina í 110 löndum.

Fjarskiptastofnun Bandaríkjanna varaði China Telecom Americas við því í apríl á síðasta ári að hún hefði til athugunar að svipta félagið starfsleyfi. Þá kom fram að stofnunin áliti fyrirtækið „liggja vel við misnotkun, utanaðkomandi áhrifum og stjórnun kínversku ríkisstjórnarinnar.“

Áður hafði sama stofnun flokkað Huawei og ZTE, sem eru bæði tvö kínversk fjarskiptafyrirtæki, ógn við fjarskiptainnviði landsins. Sú ákvörðun gerði það að verkum að fyrirtækin áttu mun erfiðara með að selja sín tæki og tól.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert