Aflétta útgöngubanni í Nýja-Sjálandi

Jacinda Arden, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Arden, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Stefnt er að því að aflétta útgöngubanni í Auckland, einni stærstu borg Nýja-Sjálands, í næsta mánuði. Útgöngubann hefur verið í gildi í borginni vegna kórónuveirufaraldursins í þrjá og hálfan mánuð. Jacinda Arden, forsætisráðherra landsins, kynnti nýjar sóttvarnareglur vegna faraldursins í morgun.

Aðeins 40 íbúar látist af völdum veirunnar

Tilslakanirnar taka gildi á miðnætti 2. desember næstkomandi. Enn er þó miðað að því að reyna hefta útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar, að því er AFP greinir frá.

„Delta er enn hér og það er ekki að fara neitt,“ sagði Arden á blaðamannafundi.

„Þótt engu landi hafi tekist að útrýma afbrigðinu algerlega er Nýja-Sjáland betur í stakk búið til að takast á við það heldur en flestir.“

Fram að þessu hefur Arden stefnt að því að gera Nýja-Sjáland að kórónuveirufríu landi með útgöngubanni, öflugri smitrakningu og hörðum landamæraaðgerðum. Í landi sem telur fimm milljónir íbúa hafa 40 látist af völdum veirunnar og hefur þrýstingur á að láta af ströngum takmörkunum og útgöngubanni aukist sífellt á undanförnum misserum.

Innleiða nýtt litakóðunarkerfi í borginni

Tekið verður upp litakóðunarkerfi þar sem grænt þýðir litlar sem engar samkomutakmarkanir og rautt að fyrirtæki mega halda starfsemi sinni áfram en viðskiptavinum ber að vera bólusettir og viðhafa fjarlægðartakmarkanir. Til að byrja með verður Auckland rauð en stjórnvöld eru enn að ákveða hvernig flokka eigi önnur svæði í landinu. 

Upphaflega ætlaði Arden að innleiða nýja litakóðunarkerfið þegar 90% landsmanna væru bólusett en um það bil 83% verða það þegar kerfið verður innleitt 2. desember. Ashley Bloomfield, landlæknir Nýja-Sjálands, segist ánægður með þá lendingu.

Í augnablikinu er Auckland lokuð með vegatálmum fyrir aðra hluta Nýja-Sjálands, en áætlað er að opna umferð inn og út úr borginni 15. desember.

Strangar sóttvarnareglur verða áfram viðhafðar á landamærunum en stefnt er á því að rýmka þær snemma á næsta ári, að sögn Arden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert