Konur handteknar eftir mótmæli

Fjöldi kvenna hafa mótmælt stjórnarfarinu í Afghanistan eftir að talíbanar …
Fjöldi kvenna hafa mótmælt stjórnarfarinu í Afghanistan eftir að talíbanar tóku yfir. Þær virðast sæta ofsóknum. ROBERTO SCHMIDT

Ekkert hefur spurst til afganskrar konu og tveggja systra hennar eftir að hún tók þátt í mótmælum gegn valdstjórn talíbana, sem tóku völdin í Kabúl í ágúst.

Konan, Tamana Zaryabi Paryani, sást síðast á myndskeiði þar sem hún grátbað um hjálp á meðan barið var á dyr hjá henni. Náin vinkona Paryani segir talíbana hafa handtekið hana en talíbanar neita sök. BBC greinir frá.

Fjöldi kvenna hefur haldið á göturnar eftir að talíbanar tóku …
Fjöldi kvenna hefur haldið á göturnar eftir að talíbanar tóku yfir í ágúst. MASSOUD HOSSAINI

Var að koma heim frá mótmælum

Paryani var nýkomin heim frá mótmælum þar sem hún og fjöldi annarra kvenna krafðist réttinda til menntunar en talíbanar hafa svipt fjölda kvenna í Afganistan þeim rétti. Piparúða var beitt á konurnar og sumum gefið rafstuð – talið er líklegt að sumum þeirra hafi verið veitt eftirför á leiðinni heim.

Á miðvikudagskvöldið klukkan átta mættu vopnaðir menn fyrir utan blokkina hennar Paryani í öðru hverfi í Kabúl. Hún var ein heima með systrum sínum þegar mennirnir börðu á dyr. 

„Hjálp! Talíbanarnir eru mættir hingað og systur mínar eru heima. Farið burt og komið á morgun, við skulum tala saman á morgun,“ segir hún í myndskeiðinu. Ólöglegt er samkvæmt lögum landsins að fara inn á heimili þar sem einungis konur eru. 

Segir að konurnar verði leiddar fyrir dóm

Suhai Shaheen, sem sækist eftir því að verða fulltrúi talíbana hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í samtali við BBC að ef talíbanar hefðu handtekið Paryani og systur hennar ættu þær rétt á að koma fyrir dóm og halda uppi vörnum. Hins vegar ef talíbanar hefðu ekki komið inn á heimilið væru þær að þykjast og birta myndbandið í von um hæli erlendis.

Vinkona Paryani sem vill ekki láta nafns síns getið hefur aðra sögu að segja; hún hafi komið inn á heimili Paryanis eftir mótmælin þar sem vinkona hennar grét og sagði Paryani hafa verið handtekna af talíbönum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert