Í kapphlaupi við tímann á Suður-Kínahafi

Torséð F35 orrustuþota. Mynd úr safni.
Torséð F35 orrustuþota. Mynd úr safni.

Bandaríski sjóherinn er í kapphlaupi við tímann við að ná einni orrustuþotu sem sökk, áður en Kínverjar ná þotunni.

F35-C orrustuþotan brotlendi í Suður-Kínahafi eftir óhapp sem varð þegar þotan ætlaði að hefja sig til lofts frá bandaríska flugmóðurskipinu USS Carl Vinson.

Þotan er sú nýjasta í flotanum og full af leynilegum skjölum. Vegna þess að hún er á alþjóðlegu hafsvæði tilheyrir hún tæknilega hverjum sem þangað kemur fyrstur.

Hver sem nær þotunni fyrstur kemst að mörgum leyndardómum bandaríska flug- og sjóhersins, segir í frétt BBC.

Þotan hrapaði á heræfingu á mánudag og liggur nú á hafsbotni. Sjóherinn hefur ekki viljað staðfesta hvar þotan hrapaði nákvæmlega eða hversu langan tíma það taki að ná henni aftur.

Kínverjar gera tilkall til næstum alls Suðu-Kínahafs og hafa á undanförnum árum reynt að stækka það, þvert á alþjóðasáttmála.

Sérfræðingar segja að kínverski herinn myndi fagna því að komast að þotunni sem hrapaði.

Varnarmálaráðgjafinn Abi Austen segir að rafhlaðan í svarta kassanum svokallaða gefi sig eftir nokkra daga og þá verði erfiðara að finna þotuna.

Hún líkir þotunni við fljúgandi tölvu sem sé mun tæknilegri en þotur kínverska hersins. Af þeim sökum hafi Kínverjar mikinn áhuga á að komast fyrstir að þotunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert