Æfing 30 þúsund hermanna hafin í Noregi

Æfingin Cold Response fer nú fram í Noregi og taka …
Æfingin Cold Response fer nú fram í Noregi og taka hermenn 27 ríkja þátt. Ljósmynd/Forsvaret

Heræfingin Cold Response í Noregi hófst 14. mars og mun hún standa til 1. apríl. Alls taka fleiri en 30 þúsund hermenn þátt frá 27 ríkjum auk fulltrúa fjölda borgaralegra aðila. Æft er á landi, á sjó og í lofti.

Um er að ræða stærstu æfingu á Norðurslóðum um nokkurt skeið, enda æfingar blásnar af vegna kórónuveirufaraldursins árin 2020 og 2021.

„Til að geta varið landið okkar verður norski herinn að æfa reglulega. Á sama tíma er NATO undirstaða varnar Norðmanna. Bandamenn okkar þurfa því að æfa við sendingu til Noregs og þeir verða að þjálfa og starfa ásamt norskum hersveitum við erfiðar vetraraðstæður,“ segir á vef norska hersins um æfinguna.

Æft er í aðgerðum við vetraraðstæður.
Æft er í aðgerðum við vetraraðstæður. Ljósmynd/Forsvaret

Þá telur norski herinn ekki ástæðu til að halda að æfingin ögri Rússum þar sem rússneskum hernaðaryfirvöldum hafi verið gert viðvart með þó nokkrum fyrirvara.

Æfingin hefur verið á dagskrá í um langan tíma en umfang hennar hefur stækkað í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Þetta hefur norska dagblaðið VG eftir Robert Bauer, aðmírál og formann hernaðarnefndar NATO. Bauer sótti Ísland heim í október síðastliðinn og ræddi við fulltrúa íslenskra yfirvalda um öryggis- og varnarmál.

Vara Úkraínumenn við

Æfingin mun fara fram á fleiri stöðum í Norður- og Mið-Noregi auk suðausturhluta landsins. Fólk á þessum svæðum verði vart við töluverða umferð hermanna um vegi landsins auk tilheyrandi tækja og ekki síst loftför af ýmsum toga.

Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu hefur skapast ótti um að æfingin geti hrætt þá sem flúið hafa Úkraínu síðustu daga og hefur norski herinn dreift til þátttakenda og um æfingasvæðin þar sem veittar eru upplýsingar á Úkraínsku. Þar segir: „Noregur, NATO og samstarfsríki æfa í Noregi til að við getum viðhaldið öryggi og öryggi íbúa okkar. Vegna þessa gætirðu séð hermenn og hermenn umferð á sumum vegum. Þetta er löngu skipulögð æfing.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert