Ivermektín dragi ekki úr Covid-einkennum

Margir hafa gripið til þess ráðs að taka ivermektín í …
Margir hafa gripið til þess ráðs að taka ivermektín í von um að það dragi úr einkennum Covid-19 sjúkdómsins. AFP/Joel Saget

Lyfið ivermektín, sem ætlað er til meðhöndlunar á sníkjudýrasýkingum, hefur ekki sýnt merki um gagnsemi til meðhöndlunar á Covid-19 sjúkdómnum. Þetta staðfesta niðurstöður umfangsmikillar klínískrar rannsóknar sem birtust á miðvikudaginn. 

New York Times greinir frá.

Í rannsókninni, sem ríflega 1.300 manns voru hluti af, fengu þátttakendur sem allir höfðu sýkst af kórónuveirunni annars vegar ivermektín og hins vegar lyfleysu til meðhöndlunar á Covid-19 sjúkdómnum. Engin merki um ávinning lyfsins voru sjáanleg.

Ekki öruggt magn í rannsóknum

Lyfið ivermektín hefur verið notað í marga áratugi við sníkjudýrasýkingum. Í upphafi faraldurs þegar sérfræðingar voru að athuga virkni margra lyfja við kórónuveirusýkingu, virtust einhverjar rannsóknir benda til þess að ivermektín gæti haft hamlandi áhrif á Covid-19 sjúkdóminn.

Gagnrýnendur bentu á að mögulega væri merki um virkni sjáanleg þar sem tilraunir væru gerðar á lyfinu við styrkleika sem væri langt umfram það sem væri öruggt fyrir fólk að innbyrða. Þrátt fyrir það hafa læknar verið að ávísa ivermektín til skjólstæðinga sinna og fer það gegn tilmælum Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA).

Ekki eigi að nota ivermektín við Covid-19

Í skrif­legu svari Lyfja­stofn­un­ar við fyr­ir­spurn mbl.is fyrr á þessu ári, kem­ur fram að ekki ætti að taka ivermektín sem for­vörn eða til meðferðar við Covid-19-sjúk­dómi, nema í þeim til­fell­um þar sem lækn­ar hafa ávísað viðkom­andi lyfi og upp­runi þess sé í sam­ræmi við lög og regl­ur.

Seg­ir þar jafn­framt að öll­um lyfj­um geti fylgt auka­verk­an­ir, líka ivermektín. Lík­ur á skaða geti einnig auk­ist sé lyf ekki tekið sam­kvæmt fyr­ir­mæl­um lækn­is.

Fleiri undanþáguávísanir

Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst fjölgaði undanþáguávísunum lyfja sem innihalda ivermektín töluvert hér á landi. 

Árið 2020 bár­ust tvö­falt fleiri und­anþágu­ávís­an­ir lyfja sem inni­halda iver­mektín fyr­ir menn en árið þar á und­an. Und­anþágu­ávís­an­irn­ar voru alls 30. Þar af voru 29 við þekktri ábend­ingu og ein við Covid-19 þar sem lækn­ir ávís­ar á sjálf­an sig og voru þær all­ar samþykkt­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert