Skortur á bjórflöskum gæti hækkað bjórverð

Bruggarar þurfa nú að greiða 80 prósent meira fyrir hverja …
Bruggarar þurfa nú að greiða 80 prósent meira fyrir hverja nýja glerflösku, en fyrir ári síðan. Ljósmynd/Colurbox

Þýsk brugghús vara við því að skortur gæti orðið á bjórflöskum í sumar vegna mikillar hækkunar á framleiðslukostnaði og fáliðun meðal vöruflutningabílstjóra. Verð á bjór gæti hækkað um allt að 30 prósent af þessum sökum. BBC greinir frá.

Bruggarar þurfa nú að borga um 80 prósent meira fyrir hverja nýja glerflösku heldur en þeir gerðu fyrir ári síðan. Þá hefur verð á bjór einnig hækkað.

Formaður samtaka þýskra bruggara segir stöðuna mjög viðkvæma. Skorturinn mun hafa mest áhrif á lítil og meðalstór brugghús, þar sem stærri bruggverksmiðjur hafa yfirleitt forgang hvað aðföng varðar.

Hvetja neytendur til að liggja ekki á flöskunum

Ástæðurnar fyrir skortinum eru meðal annars hækkun á orkuverði sem veldur hækkun á kostnaði við framleiðslu á glerflöskum og fáliðun meðal vörubílstjóra sem veldur truflun á aðfangakeðjunni.

Holger Eichele, formaður samtaka þýskra bruggara, mælir með því að neytendur séu hvattir til að skila flöskum aftur inn til smásöluaðila eins fljótt og þeir geta, í stað þess að safna flöskunum saman og liggja með þær í kjallaranum mánuðum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert