Bandarísk herflugvél lenti í dag í Indíana-ríki full af þýskri ungbarnablöndu en mikill skortur hefur verið á vörunni í Bandaríkjunum síðustu daga.
Um er að ræða blöndu sem er nauðsynleg börnum sem eru með ofnæmi fyrir kúamjólk.
Skortur á vörunni er tilkominn vegna vandamála við framleiðslu og í dreifingu á ungbarnablöndunni vestan hafs. Meðal annars vegna Covid-19 en einnig vegna lokunar á stærstu verksmiðju Bandaríkjanna sem framleiðir blönduna vegna gruns um að varan hafi ollið dauða tveggja barna.
Herflugvélin flutti um 32 tonn af ungbarnablöndu frá flugherstöð bandaríska hersins í Ramstein í Þýskalandi.
Joe Biden Bandaríkjaforseti greindi frá flutningnum á Twitter.
„Teymið okkar er að vinna allan sólarhringinn í því að koma öruggri blöndu til allra sem þurfa á henni að halda.“
Sendingin mun duga fyrir 15% eftirspurnarinnar í Bandaríkjunum. Meira er að vænta á næstu vikum.