„Pólitísk líflína“ fyrir Netanjahú

Benjamín Netanjahú, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels. AFP

Ríkisstjórn Ísraels mun stíga frá stjórnvelinum í lok mánaðarins og senda ísraelsku þjóðina af stað að kjörkössunum að nýju, í fimmta sinn á þremur árum. Forsætisráðherra landsins gerði þjóð sinni grein fyrir því á mánudag að ríkisstjórnin væri fallin en blaðamenn New York Times segja að með ákvörðuninni hafi „pólitískri líflínu“ verið kastað til Benjamíns Netanjahús, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels. 

Það er einungis ár liðið síðan hann hætti í embætti en sem stendur er réttað yfir honum vegna meintrar spillingar. Hann hefur neitað að hætta í stjórnmálum og mælist fylgi flokks hans, Likud, mest í skoðanakönnunum.

Flokkarnir of ólíkir

Stjórnarsamstarfið sem nú verður leyst upp var nokkuð flókið og spáðu margir sérfræðingar því stuttum líftíma. Um er að ræða átta flokka bandalag sem sameinaði pólitíska andstæðinga frá hægri, vinstri og miðju og innifól fyrsta sjálfstæða framboð Araba sem gengið hefur til liðs við ísraelskan þingmeirihluta. Reyndust flokkarnir, sem voru sameinaðir í þeirri afstöðu sinni að koma Netanjahú frá völdum, hafa of ólíkar skoðanir á ýmsum efnum, t.a.m. málefnum er varða Palestínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert