Borga 570 milljónir evra í skaðabætur vegna mengunar

Hér má sjá orkuver 3M í héraðinu.
Hér má sjá orkuver 3M í héraðinu. AFP

Bandaríska stórfyrirtækið 3M greindi frá því í dag að það hafi samþykkti að borga 571 milljón evra, sem nemur rúmlega 81 milljarði króna, í bætur til stjórnvalda í Belgíu vegna mengunar á svæði nálægt hafnarborginni Antwerpen. 

Árum saman hefur eitraður úrgangur verið losaður úr orkuveri 3M hjá bænum Zwijndrecht í nágrenni Antwerpen á ólöglegan hátt. Hefur það valdið gífurlegri mengun á svæðinu sem er talin hættuleg fólki.

Eiturefni sem geta valdið krabbameini

Fréttastofa Bloomberg greindi til dæmis frá því fyrr í sumar að eiturefnið perflúoróktansúlfónsýra (PFO) hefði fundist í vatni, jarðvegi og í lífsýnum úr fólki á svæðinu. Vísað er til eiturefnisins sem eilífðarefnis þar sem það safnast saman í vatni og jarðvegi og er nær ómögulegt að losna við það. Þá leysist efnið mjög hægt upp í líkamanum.

Eiturefnið er talið mjög skaðlegt heilsu fólks. Til dæmis getur það valdið krabbameini og hormónaójafnvægi. Heilbrigðisyfirvöld á svæðinu gáfu út rannsókn í október sem sýnir að 59 prósent fullorðna sem búa innan þriggja kílómetra frá orkuverinu séu með of mikið magn af PFO í blóðinu.

Mun upphæðin sem 3M borgar nýtast til að bæta úr ástandinu fyrir samfélagið sem býr í grennd við orkuverið. 

Komust 3M og stjórnvöld í Flæmingjalandi í Belgíu að samkomulagi að sáttum áður en málið var tekið fyrir dómstólum og mun 3M því greiða 571 milljón evra í skaðabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert